141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[13:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að því lýsa yfir að ég hef ávallt verið eindreginn talsmaður fæðingarorlofsins. Á sínum tíma þegar við ræddum það undir forustu Geirs H. Haardes sagði ég að mín sýn til lengri tíma væri að lengja ætti það í eitt ár. Ég ætla ekki að koma og segja að ríkisstjórnin — það er reyndar rétt að ríkisstjórnin er búin að grufla svolítið í þetta mikilvæga jafnréttistæki, reyndar það mikið að það er alveg komið að hættumörkum, en núna á að hysja upp um sig buxurnar af því að kosningar eru á næsta ári. Þá er það bara þannig, það er bara gott mál, það skiptir máli að þetta skref sé tekið að mínu mati og þess vegna fagna ég því sérstaklega.

Hins vegar vil ég velta einu upp í ljósi þeirrar þróunar sem hefur verið á umliðnum árum. Færri feður taka núna fæðingarorlof, og það er mjög vont. Að mínu mati er það mjög vont þó að sumir hér í húsinu fagni því sérstaklega. En það sem ég velti fyrir mér er hvort menn hefðu metið það í ljósi reynslu síðustu ára hvort það væri öflugra sem jafnréttistæki að hækka greiðslurnar, af því að við þurfum að forgangsraða, í staðinn fyrir að lengja. Ég velti því aðeins upp og óska eftir því að ráðherra pæli í gegnum það með mér af því að ég horfi á fæðingarorlofið fyrst og fremst sem jafnréttistæki.

Það er að sjálfsögðu eðlilegt að passa upp á börnin og gæta þeirra og allt það, en við settum þetta fyrirkomulag á sínum tíma með þær forsendur í huga að það væri jafnréttistæki og ætti að virka sem slíkt. Nú hefur aðeins slaknað á því og þess vegna velti ég því fyrir mér hvort það hefði verið skynsamlegra til að reyna að koma okkur áfram í jafnréttismálum að hækka frekar þakið til að fá fleiri feður til að taka fæðingarorlof í staðinn fyrir að lengja það. Þetta eru vangaveltur sem mig langar að setja fram í umræðunni um þetta annars mikilvæga mál.