141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfsagt hef ég ekki talað nægilega skýrt. Ég hef sagt að ég geri mér fyllilega grein fyrir því að varúðarsjónarmið varðandi náttúruvernd og umhverfisleg sjónarmið eru lögð hér til grundvallar sem meginmarkmið. Ég benti bara á hvort ekki ætti að taka tillit til annarra sjónarmiða. Það þýðir um leið að ég er ekki tilbúinn að segja að þegar vantar atvinnu sé verkefnið bara að virkja eða gera eitthvað annað til að búa til atvinnu. Auðvitað verður atvinnan að hafa einhvern tilgang.

Við höfum víðtæka reynslu og þekkingu af atvinnusköpun í orkugeiranum. Í þeim geira er umtalsverður hópur fólks sem starfar nú orðið erlendis við að miðla þekkingu okkar vegna þess að í honum erum við hvað best, fyrir utan sjávarútveg.

Ef við héldum áfram á þeirri braut, við þau verkefni — það var það sem ég var að benda á að verkalýðshreyfingin á Suðurlandi kallaði eftir aftur og aftur. Hvenær á að bjóða út neðri hluta Þjórsár? Menn töldu að (Forseti hringir.) það væri búið að fara í gegnum þann pakka, verkið var tilbúið og átti að bjóða það út fyrir þremur, fjórum árum. Umræðan er búin að standa í fimm, sex ár um að fara að virkja í neðri hluta (Forseti hringir.) Þjórsár, svo að dæmi sé tekið.