141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var ágætisyfirlit yfir nefndarálitið sem hv. þingmaður er á án fyrirvara. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir þær ábendingar sem meiri hluti nefndarinnar gefur til næstu verkefnisstjórnar sem og Alþingis og ráðherra. Mig langar að spyrja nánar út í þær því ég átti ekki sæti í nefndinni. Ég er að tala um bls. 24 og 25 í nefndarálitinu. Mig langar að byrja á því að spyrja út í ábendingu sem meiri hlutinn beinir til ráðherra og Alþingis, þ.e. A-liðinn, um að meta hvort ástæða sé til að rammaáætlun taki einnig til smærri virkjana. Hvað á nefndin við? Er verið að tala bara almennt um allar virkjanir, er verið að tala um bæjarlækinn, hvaða stærðarviðmið voru menn að hugsa um? Svo menn átti sig nú á hvaða skilaboð er verið að senda.

Einnig B-liðurinn, þar er ábending um að athuga hvort ekki væri æskilegt að í lögum væri mælt fyrir um endurmat ónýttra kosta í orkunýtingarflokki að tilteknum tíma liðnum. Taldi nefndin ekki jafnframt þörf á að endurmeta og enduryfirfara verndunarflokkinn? Telur nefndin að þetta eigi bara við um nýtingarflokkinn? Þetta er B-liður á bls. 25.

Þetta er kannski allt of flókin spurning í svona stuttu andsvari en hv. þingmaður nýtir tímann eins vel og hægt er. Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann, ef hann kemur því við hér í andsvari sínu, að fara aðeins nánar í rök fyrir þessu nýja hugtaki „buffer zone“. Hvað nákvæmlega er það sem á að bætast við vinnuna sem verkefnisstjórnin fór í? Vegna þess að hún leit að sjálfsögðu til svæða, ekki bara til afmarkaðra þátta.