141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:43]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í þessari umræðu og umfjöllun um málið að það er ekki brýn þörf fyrir frekari nýtingu vegna almenningsþarfa í landinu, ekki á næstu árum. Ef við förum í frekari virkjanir núna er það til að þjóna stóriðjunni en það er ekki þörf á því vegna almenningsnota. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni, og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir benti á rétt áðan, er rammaáætlun ekki orkunýtingarstefna, hins vegar er æskilegt að hún sé tengd við orkunýtingarstefnu. Það er hins vegar viðfangsefni og verkefni.

Af því að hv. þingmaður spyr um mína persónulegu sýn og afstöðu til þessa máls þá byggir hún fyrst og fremst á sjónarmiðum, sem ég held að okkur hljóti öllum að vera mjög nákomin, um sjálfbærni og skynsamlega nýtingu. Að fara sér ekki óðslega vegna þess að það kemur fram á hverjum tíma, og ekki síst á þeim tímum sem við lifum núna, ný þekking og nýjar viðvaranir, t.d. varðandi endingartíma háhitasvæða sem eru viðkvæmari en talið var bara fyrir áratug. Afstaða mín til málsins byggir því á almennum sjónarmiðum, samþættingu náttúruverndarsjónarmiða og skynsamlegrar nýtingarstefnu.