141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:51]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ætli skýringin á því að áherslan er svona milli vatnsafls- og jarðvarmavirkjana í áætluninni sé ekki sú að vatnsaflsvirkjanirnar lágu fyrst við höggi og auðveldustu vatnsaflskostirnir voru virkjaðir fyrst þannig að þeim kostum er kannski farið að fækka miðað við það sem var hér í upphafi.

Með hvaða hætti nýtum við virkjun náttúruauðlinda til atvinnusköpunar, hvað er þingmaðurinn að hugsa um? Hann hlýtur þá fyrst og fremst að vera að hugsa um stóriðjuna því að það er sú atvinnusköpun sem þá blasir fyrst og fremst við. Það er til dæmis ekki þörf á frekari virkjunum vegna almannahagsmuna, vegna hitunar og orku til almenningsnota.

Við megum ekki heldur gleyma því, sem ég minntist á í ræðu minni, að vernd náttúrugæða getur verið nýting vegna þess að það skapar líka störf að hlífa ákveðnum svæðum. Ferðaþjónustan nýtir sér þessar náttúruauðlindir margar hverjar í atvinnuskyni þannig að vernd er á vissan hátt nýting, ekki bara í huglægum skilningi heldur í beinum efnahagslegum og samfélagslegum skilningi. Þetta er, eins og ég segi, alltaf spurning um hverju við ætlum að kosta til. Það sem mér finnst nú mest um vert í þessu er að við stígum varlega til jarðar, nýtum þessa rammaáætlun sem góðan ramma og grind utan um það hvernig við teljum gerlegt að nýta þau landsvæði til orkunýtingar sem legið hafa undir í umræðunni. Ekki er þar með sagt að virkja þurfi alla hluti strax og síðan þarf að tengja þessa rammaáætlun við stefnumótun í orkunýtingarmálum til framtíðar.