141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að við höfum fengið forsmekkinn að því þegar við ræddum um náttúruverndaráætlun á sínum tíma þar sem hæstv. umhverfisráðherra reyndi að stækka verndarsvæði í kringum Þjórsárver með það að markmiði að hafa áhrif á hvernig verkefnisstjórn um rammaáætlun færi með Norðlingaölduveitu. Því miður tel ég að það hafi tekist að ákveðnu leyti að vinna þá umræðu, sem sagt að Norðlingaölduveita mundi hafa mikil áhrif inn í Þjórsárver, sem er í raun ekki staðan.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort nefndin hafi farið yfir erindisbréf verkefnisstjórnar, vegna þess að þar kemur fram að hæstv. iðnaðarráðherra muni á grundvelli niðurstaðna skýrslu verkefnisstjórnar og að höfðu samráði við umhverfisráðherra og verkefnisstjórnina leggja fyrir Alþingi tillögu að rammaáætlun. Var ráðuneytið spurt út í það hvenær sú ákvörðun var tekin að víkja frá niðurstöðum verkefnisstjórnar og á hvaða (Forseti hringir.) grundvelli hún var tekin?