141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég innti forseta eftir því áðan hvort það væru einhver dagsetningarbundin rök fyrir því að taka þetta mál í forgang fram yfir mál sem sannarlega hafa tengingu við áramót, hafa tengingu við fjárlög og þurfa af efnisástæðum að fara í gegnum þingið fyrir þinglok. Ég hef ekki heyrt þau rök og hef ekki fundið þau. Þetta mál þarf augljóslega mikla umræðu og það hefur alltaf legið fyrir, alveg frá því að það kom fyrst inn í þingið á síðasta vetri. Það hefur alltaf legið fyrir að það yrði mikið umrætt og umdeilt eins og frá því var gengið. Þá mundi ég segja að eðlileg verkstjórn væri að setja það til hliðar og taka fyrir þau mál sem þarf að afgreiða (Forseti hringir.) á næstu dögum. Ég spyr hæstv. forseta aftur: Eru einhver rök sem eru (Forseti hringir.) mér dulin í þessu máli sem tengjast áramótum eða fjárlögum (Forseti hringir.) með einhverjum hætti?