141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili þessum vangaveltum með hv. þingmanni um þau tilmæli sem meiri hlutinn beinir til hæstv. ráðherra og Alþingis, hvort við séum með samþykkt þessarar tillögu að breyta í raun eðli verkefnisstjórnarinnar. Maður spyr sig hvort hið nýja eðli eigi að heyra til leyfisveitinga og fleiri þátta.

Ég spyr hv. þingmann, sem hefur eins og ég oft nefnt þetta í umræðunni og hefur yfirgripsmikla þekkingu á starfsemi verkefnisstjórnarinnar í ljósi þess að hún átti sæti í henni, hvort hún telji að sá tímarammi, þ.e. fram á næsta haust, sem verkefnisstjórn hafi til að ljúka störfum sé raunhæfur. Eins og fram hefur komið á í fyrsta lagi að fara fram rannsókn á orkukostum í Þjórsá sem hefur ekki verið á hendi verkefnisstjórnarinnar hingað til, síðan á sem sagt að skoða smærri virkjunarkosti, en verkefnisstjórnin á einnig að skoða möguleika á vindorku og sjávarfallaorku. Þetta eru mjög umfangsmikil verkefni sem þarna er verið að fela verkefnisstjórninni og spurning hvort allt það sem ég hef talið hér upp eigi heima þar.

Ég spyr líka hv. þingmann að því hvort henni finnist tækt að við afgreiðum þessa þingsályktunartillögu héðan án þess að vita hvað þeir þættir sem ég nefndi áðan muni kosta og hver eigi að standa undir þeim kostnaði. Er það ríkissjóður? Eru það aðilar í orkuvinnslu eða einhverjir aðrir? Þetta finnst mér að við þurfum að fá á hreint áður en við ljúkum þessari umræðu.