141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að það sé alveg á hreinu var gert ráð fyrir atvinnuuppbyggingu í stóriðju á seinni hluta árs 2013 í hagspá Hagstofunnar. Hún getur verið á Bakka þangað sem Landsvirkjun beinir öllum viðskiptavinum sem koma hingað til að fara í þá vegferð eða hafa áhuga á að fara í atvinnuuppbyggingu.

Við sjáum auðvitað í hendi okkar að ef þessi þingsályktun fer svona fram verður ekki sköffuð orka á suðvesturhorninu þannig að það er alveg rétt sem hv. þingmaður kemur inn á. Þá er að sjálfsögðu líka rökrétt niðurstaða, þegar hluti af því sem á að bera uppi hagvöxtinn er undir, að hagspáin stenst ekki.

Það er auðvitað þess vegna sem forustumenn atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar koma fram með svona afgerandi hætti. Atvinnustefna og efnahagsstefna þessarar ríkisstjórnar er svo að ráðist er gegn öllu atvinnulífi og allri atvinnuuppbyggingu. Síðast réðist hæstv. ríkisstjórn að ferðaþjónustunni. Það þýðir auðvitað þetta öngstræti sem við erum í. Einu lausnir hæstv. ríkisstjórnar eru að hækka skatta. Bara þær skattahækkanir sem hafa áhrif á vísitöluna núna munu hækka lán heimilanna um 3 milljarða og heimilin eru auðvitað að sligast. Þetta vita forustumenn Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Það er auðvitað ekki nema von að fólkið sem er í forsvari fyrir þessi samtök gefist upp á hæstv. ríkisstjórn. Þess vegna er svo mikilvægt að menn bregðist við og komi hjólum atvinnulífsins í gang.

Hv. þingmaður nefndi líka þann tvískinnung sem oft er þegar menn eru að nota eitthvað til heimabrúks. Nú stýrði hv. þingmaður þætti með einum hv. þingmanni, Sigmundi Erni Rúnarssyni, sem er búinn að vera með hæstv. ríkisstjórn á skilorði í mjög, mjög langan tíma. Hann tilkynnti það fyrir um tveimur árum að það væru einhverjar vikur sem hún væri á skilorði. Getur hv. þingmaður kannski upplýst okkur vegna samskipta þeirra á þessu sviði, þó að hann sé ekki lengur þáttastjórnandi, hvort eitthvað sé að styttast í skilorði hjá hæstv. ríkisstjórn hjá hv. þingmanni?