141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég á að svara þessu beint held ég það, já. Ég held reyndar að þetta eigi sér aðdraganda allar götur aftur í myndun þessarar ríkisstjórnar. Ég er þess sannfærður og þótt maður geti ekki fært fyrir því einhver bein rök eða vitnað í eitthvað sérstakt í þeim efnum hafa þær sögur heyrst að við myndun þessarar ríkisstjórnar hafi þessi samningur verið gerður, að hér yrði virkjanastopp umfram það sem væri komið af stað gegn því að aðildarviðræður að Evrópusambandinu gætu farið fram í einhverjum farvegi.

Þannig held ég að hrossakaupin hafi verið gerð milli ríkisstjórnarflokkanna. Það hefur komið fram, eins og vitnað var í, að þingmenn Vinstri grænna hafa sett þetta sem skilyrði fyrir stuðningi við ríkisstjórnina. Líf ríkisstjórnarinnar hefur hangið á þessu máli. Auðvitað er það öllum augljóst þegar grannt er skoðað vegna þess að þetta mál hefði í sjálfu sér getað komið fram og verið lokið í þinginu fyrir upp undir einu og hálfu ári. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar með kjarasamningum 5. maí 2011 segir að afgreiðslu rammaáætlunar verði lokið fyrir árslok 2011. Af hverju var vitnað sérstaklega í rammaáætlun í því plaggi? Það var vegna þess að við þá ákvörðun voru bundnar væntingar um að þá færu ákveðnar fjárfestingar af stað. (Forseti hringir.) Það er hægt að greiða áframhaldandi fjárfestingum á orkusviðinu leið (Forseti hringir.) þannig að málin haldi áfram en staðan er svona eins og hún er (Forseti hringir.) í dag.