141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu sem forustumenn Samtaka atvinnulífsins og ASÍ hafa svo frábærlega bent á að það verði að skoða rammaáætlun betur. Þeir hafa líka tekið undir að það eigi að setja málið í þann farveg sem hægt er að standa við til lengri tíma. Ekki bara til skemmri tíma eða til að þóknast duttlungum ríkisstjórnarflokkanna heldur ekki síst út af því að menn vilja halda áfram, annars vegar að framkvæma en líka að byggja upp og vernda ákveðin svæði, sem ég mun koma að á eftir í ræðu, þau mikilvægu svæði sem ég fagna sérstaklega að eru sett í vernd með þessari tillögu.

Sem betur fer hafa þingmenn stjórnarflokkanna bæði tekið þátt í umræðunni framan af degi alla daga, m.a. í dag, og tekið þátt í andsvörum o.fl. Síðan les maður að formaður þingflokks Samfylkingarinnar segi að hér sé málþóf í gangi eða að við séum að stoppa mál ríkisstjórnarinnar. Hvers konar vitleysa er það? Það vita allir sem fylgjast með þingstörfum, hafa gert í einhvern tíma og eru eldri en tvævetur að þetta mál er auðveldlega hægt að leysa. Það er ekkert mál að taka einfaldlega þá rammaáætlun sem við ræðum hér um af dagskrá um tíma, t.d. þangað til eftir áramót og klára að ræða hana þá en koma öðrum mikilvægum málum að mati ríkisstjórnarinnar í gegnum þingið. Það er margoft búið að bjóða. Menn eru margoft búnir að fara yfir það en þetta er byrjað að snúast um annaðhvort duttlunga eða meint stolt einhverra tiltekinna einstaklinga, þingmanna stjórnarflokksins, og fyrir vikið líða öll þingstörfin fyrir það.

Ég kom aðeins í upphafi að því sem forustumenn Samtaka atvinnulífsins og ASÍ hafa verið að benda á með réttu. Ég vil reyna að draga fram á þeim skamma tíma sem er eftir í mínu máli hvað gerist ef þessi rammaáætlun eins og hún er núna verður samþykkt. Rammaáætlun sem eftir 12 eða 13 ár er ekki í verkferli í sátt með stuðningi allra flokka heldur endar verkferlið með því að vera rifið upp með rótum og rammaáætlun er breytt í eitthvert pólitískt plagg ríkisstjórnarinnar. Hvað gerist ef þetta pólitíska plagg vinstri stjórnarinnar verður samþykkt? Það þýðir að búið er að setja stopp á allar virkjanir. Ég benti á Jónas Elíasson, fyrrum prófessor í virkjunarfræðum við Háskóla Íslands. Hann segir að eins og rammaáætlun lítur út núna sé hún rammaáætlun um ekki neitt. Það verði ekkert virkjað og ekki farið í neinar framkvæmdir. Við erum samt vel að merkja að tala um framkvæmdir, og ég vil ekki að það sé snúið út úr fyrir mér hér, sem meðal annars verkefnastjórnin benti á að væri rétt að fara í af því að þær hafa verið rannsakaðar svo mikið, Holta- og Hvammsvirkjun og hugsanleg virkjun Urriðafoss sem ég hef sagt fyrir mína parta að megi bíða með og setja í biðflokk. Það verði ekki farið í veituframkvæmdir sem eru afar hagstæðar og margrannsakaðar og unnið hefur verið að í pólitísku samkomulagi í gegnum árin undir forustu Jóns Kristjánssonar, þ.e. varðandi Þjórsárveituna.

Hvað gerist ef við samþykkjum þetta? Þetta plagg verður virt að vettugi. Við sjálfstæðismenn höfum lýst því yfir og ég hef heyrt það á framsóknarmönnum líka. Af því að við viljum vinna faglega þýðir það engu að síður að málið fer í ákveðið verkferli og það er vonandi að verkefnisstjórnin verði virkjuð. Síðan fer málið í þennan farveg sem er innan þingsins og það þýðir að ferlinu verður aldrei breytt, og kannski er það tilgangurinn, fyrr en í fyrsta lagi 2014. Það þýðir, og það eru skilaboð ríkisstjórnarinnar til Samtaka atvinnulífsins og ASÍ, að við ætlum ekki að fara í þær virkjunarframkvæmdir sem er búið að margrannsaka og verkefnastjórnin mælti með. Það á ekki að fara í þær. Það er sá slagur sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að taka. Við munum ekki sjá fram á að hagvöxtur byggist upp í þeim mæli sem æskilegt er til að við förum, og ég mun koma að því í næstu ræðu minni, að vinna m.a. á hreinum skuldum ríkissjóðs. Það er ekki hægt að gera öðruvísi en með því að byggja upp myndarlegan hagvöxt. Við verðum að fara að horfast í augu við það. Til þess þurfum við að nýta í jafnvægi náttúruauðlindir okkar, m.a. þær náttúruauðlindir sem verkefnisstjórnin hefur marglýst yfir (Forseti hringir.) og bent á að séu bæði hagkvæmar og rétt að fara í að þeirra faglega (Forseti hringir.) mati gerðu.