141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Herra forseti. Í tengslum við þessa umræðu er eitt sem ég held að sé fróðlegt að fara aðeins yfir. Við höfum orðið vör við aukna umræðu undanfarin ár, sérstaklega síðasta ár, innan Landsvirkjunar og víðar um að flytja orku gegnum sæstreng til Evrópu.

Ég man eftir því að ég las það eitt sinn í skýrslu sem Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, var í forstöðu fyrir að framtíðarorkuforði Evrópu og Evrópusambandsins væri á norðurslóð, á Íslandi, Grænlandi og í Noregi. Við horfum upp á það ítrekað og Landsvirkjun hefur til að mynda talað fyrir því að sæstrengur sé það sem koma skuli, sæstrengur sé það sem við skulum stefna að og að við eigum að vinna að því að ráðast í 1.600 kílómetra sæstrengsframkvæmd til að selja orku til Evrópu.

Herra forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að tengja þessa umræðu við rammaáætlunina. Þessari stefnumótun er sá sem hér stendur algerlega ósammála. Haft hefur verið eftir forstjóra Landsvirkjunar, m.a. eftir síðasta ársfund sem haldinn, og sagt frá því í fréttum, með leyfi forseta:

„Hörður sagði að markmið sem ESB hefði sett sér í orkumálum til ársins 2020 snerust ekki bara um að draga úr brennslu jarðefniseldsneytis til að minnka mengun. Þetta snerist ekki síður um orkuöryggi og þjóðaröryggi. Jarðefnaeldsneyti væri ekki óendanleg auðlind og þjóðirnar gerðu sér grein fyrir að til að byggja upp öflugt atvinnulíf þyrftu þær að eiga kost á nægu og öruggu rafmagni.“

Ég held að það sé alveg ljóst, og vil segja það hérna í þessari umræðu, að ákveðins tvískinnungs gætir í málflutningi þeirra sem tala hvað heitast fyrir niðurstöðu þeirrar rammaáætlunar sem hér er til umræðu, sérstaklega í ljósi þess að síðast í dag bárust okkur fregnir af drögum að ályktun Evrópuþingsins um Ísland. Í fréttum af þessu í íslenskum fjölmiðlum í dag segir, með leyfi forseta:

„Með inngöngu í Evrópusambandið gæti Ísland lagt mikið af mörkum í málefnum endurnýjanlegra orkugjafa í Evrópu, að mati sérlegs fulltrúa utanríkismálanefndar Evrópuþingsins í aðildarviðræðum Íslands og ESB. Þá hvetur Evrópuþingið Íslendinga til að skoða frekar möguleika á því að flytja út orku til Evrópu í gegnum sæstreng.“

Í þessum sömu drögum segir jafnframt að Evrópuþingið sé, með leyfi forseta, „sannfært um að nánari samvinna á þessu sviði geti stuðlað að fjárfestingu og þannig haft jákvæð áhrif á efnahag og atvinnu á Íslandi og í ESB. Því er hvatt til framþróunar, svo sem athugunar á því að tengja raforkukerfi Íslands við meginland Evrópu í gegnum sæstreng.“

Þarna eru menn að tala um hugmyndir. Evrópusambandið sjálft er farið að tala um þessar hugmyndir og Landsvirkjun er farin að tala um þær hugmyndir að gera íslenska raforkukerfið að hluta af markaðskerfi Evrópusambandsins. Ég er þessu algerlega ósammála. Ég er þeirrar skoðunar að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að nýta auðlindir okkar til atvinnuuppbyggingar en við eigum ekki að fara út í útflutning á rafmagni með þessum hætti til Evrópu. Það rafmagn sem við framleiðum eigum við að nota til atvinnuuppbyggingar á Íslandi. Það höfum við gert hingað til. Reynsla margra nágrannaríkja okkar sem hafa fetað þessa braut, eins og Noregs, er sú að rafmagnsverð hefur þre- til fimmfaldast eftir að slíkur sæstrengur var settur upp. Það er óhætt að segja að rafmagnsverð til almennings og fyrirtækja í Noregi hefur margfaldast frá því að sæstrengur var settur upp. Þessi umræða er held ég á miklum villigötum. Það bendi allt til þess þegar maður sér hver stefnumótunin er hjá Evrópusambandinu í þessum efnum. Það hlýtur að benda til ákveðins tvískinnungs í máli margra sem tala bæði fyrir þessari rammaáætlun og síðan tillögum varðandi Evrópusambandsaðild.