141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[22:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé sama hvernig við nálgumst þetta, hvort sem það er eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir gerir þegar hún segir að hér sé verið hunsa vilja þingsins, sem er án nokkurs vafa verið að gera, eða sem skýrt dæmi um fullkomið dugleysi þessarar hæstv. ríkisstjórnar.

Ég spurði formann velferðarnefndar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, hvernig standi á þessu. Af hverju eru menn, eins og hér hefur komið fram, að fresta þessu á hverju einasta ári þessa kjörtímabili án þess að gera nokkuð í málunum? Það var nákvæmlega ekkert svar við því. Að auki kom fram mjög sérkennileg túlkun á reglugerðum og lögum hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur en hún sagði að hér ættu að vera skýr lög og skýrt hvað ráðherra eigi að setja í reglugerðir. Deilan snýst um það að flestir telja að við hv. þingmenn eigum að ganga frá því í lagatexta, nema hjá því verði ekki komist, hvað við viljum fá fram í lögunum. Við eigum ekki að gera eins og gert hefur verið og setja opnar reglugerðarheimildir fyrir hæstv. ráðherra því þá færum við vald sem á að vera hjá þinginu yfir til framkvæmdarvaldsins. Það hefur verið bent á að það hefur sérstaklega verið allt of algengt í heilbrigðisgeiranum.

Virðulegi forseti. Ég hélt að það væri þverpólitísk samstaða um að reyna að breyta þessu en við sjáum hér hæstv. ríkisstjórn stíga annað skref í reglugerðarvæðingu í heilbrigðismálum. Það er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að Samfylkingin er að fara gegn sinni eigin stefnu, í það minnsta stefnunni sem var en hún var að koma samningagerð í heilbrigðisþjónustu á einn stað og koma á vandaðri samningagerð við þær stofnanir sem veita heilbrigðisþjónustu.

Eftir því hefur verið kallað alls staðar. Það skiptir engu máli hvort það eru opinberar stofnanir, sjálfseignarstofnanir eða einkaaðilar, það hafa allir kallað eftir því að gerðir yrðu samningar þar sem væri skýrt kveðið á um hvaða þjónustu átti að veita og sömuleiðis að farið væri að kostnaðargreina þjónustuna. En dugleysi þessarar ríkisstjórnar er algert í þeim málaflokki og ég vek athygli á því sem kemur fram í fróðlegu nefndaráliti frá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur og Einari K. Guðfinnssyni.

Þar segir á bls. 2, með leyfi forseta:

„Ekki er enn lokið við áformaða fjárhagslega uppskiptingu milli TR og SÍ í samræmi við niðurstöðu ráðgjafanna sem unnu að aðskilnaðinum fyrir forsætisráðuneytið (kostnaðargreining TR, dags. 6. maí 2008, lögð fyrir heilbrigðisnefnd Alþingis í aðdraganda laga nr. 112/2008).“

Virðulegi forseti. Það er ekki enn þá búið að gera það. Þetta var ekki einfalt hjá þeim ráðherrum sem þá voru, sem voru ég og hæstv. núverandi forsætisráðherra, það tók svolítinn tíma og var erfitt að ná niðurstöðu í ýmsum málum og meðal annars þessu, svo það sé bara sagt. Síðan þá hafa félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið verið sameinuð, hvorki meira né minna, sem var nú ekki skynsamlegt en látum það liggja á milli hluta. Það var gert sérstaklega í nafni þess að samvinnan yrði auðveldari. Samt sem áður er þessari uppskiptingu ekki enn lokið. Það er ótrúlegur slóðaskapur.

Síðan segir hér:

„Ekki hefur enn orðið af tilflutningi 5–6 starfsmanna frá aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins til stofnunarinnar vegna samningamálanna, sbr. til dæmis umsögn fjármálaráðuneytis um frumvarp til laga um sjúkratryggingar (þskj. 955, 613. mál).“

Og:

„Ekki hefur enn orðið af tilflutningi starfsmanna frá heilsugæslunni og Landspítalanum sem sinnt hafa samningsgerð og öðrum verkefnum sem SÍ var ætlað að sinna, sbr. til dæmis ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.“

Virðulegi forseti. Nú getur kannski verið að einhverjum finnist þetta hljóma eins og það sé verið að diskútera einhver tæknileg atriði sem skipta litlu máli en þau skipta ekki litlu máli. Þetta er stórmál sem snýr að heilbrigðisþjónustunni, að þjónustu við sjúklinga þessa lands og um að þeir fái sem besta þjónustu.

Þessi ríkisstjórn hefur hins vegar hunsað vilja Alþingis og sýnt ótrúlegt dug- og dáðleysi í málinu. Þeir sem verða fyrir barðinu á því dugleysi og framkvæmdaleysi eru þeir sem síst skyldi og það eru sjúklingar þessa lands. Það er ekkert annað við þetta frumvarp að gera en greiða atkvæði gegn því.