141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

291. mál
[12:34]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held nauðsynlegt sé að taka það fram að bæði formaður hv. nefndar og framsögumaður málsins, hv. þingmenn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Ólína Þorvarðardóttir, hafa báðar beðist afsökunar á þeim mistökum sem urðu við vinnslu málsins hér úr ræðustól Alþingis og enn fremur á fundi nefndarinnar og við þá sem skiluðu inn umsögn, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég varð vitni að því í morgun á fundi nefndarinnar eins og aðrir hv. nefndarmenn sem þann fund sátu. Einum sjö sinnum komu fram afsökunarbeiðnir, held ég að ég hafi talið, á þeim fundi.

Ég held að við eigum ekki að tefja okkur lengur á því að ræða þessi mistök. Allir nefndarmenn eru sammála í því að taka málið til vandlegrar skoðunar milli 2. og 3. umr. og hefur sannarlega verið beðist velvirðingar á þessum mistökum og formaður og framsögumenn hafa tekið ábyrgð á þeim eins og hér hefur glöggt komið fram.