141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[19:31]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í upphafi vil ég segja að út af fyrir sig er ágætt að núverandi ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti eru að reyna að setja einhvern lagaramma utan um sölu á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum eða yfir höfuð sölu á eignum ríkisins. Sporin hræða nefnilega í þeim efnum. Ég held að flestum sé minnisstætt árið 2009 þegar hafinn var undirbúningur bak við luktar dyr að sölu eignarhluta ríkisins í fjármálastofnunum þá. Það var ekki fyrr en eftir mikla eftirgangsmuni að hausti ársins 2009 og eftir að sá sem hér stendur gekk eftir því að Ríkisendurskoðun gæfi Alþingi álit sitt á því hvernig farið væri með ráðstöfun á þessum hlutum, að tekið var til ráðs af hæstv. ríkisstjórn að koma fram með lagafrumvarp milli jóla og nýárs undir lok árs til þess að fá í rauninni formlega heimild Alþingis til þeirra gjörninga sem hafði verið gripið til fyrr á árinu. Hún hefur alla tíð verið umdeild, jafnvel enn þann dag í dag hafa menn ekki hugmynd um hverjir keyptu hluti ríkisins í þeim fjármálastofnunum né heldur hverjir eignarhlutirnir eru í dag, í hvers höndum þeir eru. Út af fyrir sig má segja að stjórnarmeirihlutinn hafi af þeirri þrautagöngu sinni lært það eitt að æskilegra sé, eðlilegra og skynsamlegra að hafa lagaumgjörð um eigin gerðir í þeim efnum.

Að því leytinu til eru þær gagnrýnisraddir réttmætar varðandi þetta mál. Það er sett upp á þann hátt að um er að ræða algjörlega opna heimild til ráðherra sem fer með þau efni til sölu á þessum hlutum. Jafnvel er hún svo opin að maður gæti ætlað það að ef núverandi ríkisstjórn væri við stjórnvölinn þegar til þess kæmi að beita þessu dytti henni í hug að selja Blóðbankann, en það yrði örugglega erfitt að finna þann kjölfestufjárfesti sem meiri hluti fjárlaganefndar teldi mjög æskilegt að fá inn við slíka sölu.

Ég hef raunar aldrei skilið almennilega hvað átt er við með hugtakinu kjölfestufjárfestir. Ég held að mjög erfitt sé að festa hendur á því til hve langs tíma slíkt er. Ekki er gerð nein tilraun til þess að setja það inn í nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar hvað átt er við með því hugtaki. Eins og bent hefur verið á umræðu og í spjalli þingmanna úti í sal áðan er reynsla manna af því hugtaki, kjölfestufjárfestir, og hvernig þeir kunna að haga sér í meðferð þessara hluta ekki góð. Því er ástæða til að gjalda ákveðinn varhuga við því.

Ég stend að áliti minni hluta fjárlaganefndar ásamt hv. þm. Ásbirni Óttarssyni og hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Við lögðum fram þetta nefndarálit við málið sem byggir að stærstum hluta á þeim umsögnum sem við fengum til nefndarinnar. Í nefndaráliti okkar kemur ágætlega fram megináhersla okkar við umræðu um mögulega sölu á eignarhlutum, hvort heldur þar er um að ræða fjármálafyrirtæki eða aðrar eignir ríkissjóðs. Við teljum æskilegt að það sé bundið og skilyrt að andvirði þeirra renni til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs í stað þess að fjármagna hallarekstur ríkissjóðs eins og gert er í dag, einfaldlega af þeirri ástæðu að fjárlög ársins 2013 gera ráð fyrir að tekjur af sölu eignarhluta í fjármálafyrirtækjum muni skila ríkissjóði 4 milljörðum kr. á næsta ári. Okkur þykir það miður að þeim fjármunum sé ráðstafað með þeim hætti sem þar er greint.

Við erum þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að fara varlega í sölu hluta, sérstaklega með tilliti til þess hvenær selt er. Við höfum talið æskilegt að áskilnaður hefði verið um það að setja á fót faglega ráðgjafarnefnd til að móta reglur um söluferlið og fylgja henni síðan eftir með það að meginmarkmiði að hámarka andvirði eignarhlutarins.

Í 2. gr. í frumvarpinu kemur fram ákvörðun um sölumeðferðina, að ætlunin sé að fjármálaráðherra eða ráðherra sá sem tekur afstöðu til tillögu Bankasýslunnar skili eða útbúi greinargerð um ráðgerða sölumeðferð og leggi fyrir fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Að okkar mati þyrfti rammi að slíkri greinargerð helst að liggja fyrir áður en afstaða væri tekin til þess frumvarps sem fyrir liggur.

Við undirstrikum einnig það sem hefur komið fram í máli hv. þingmanna, m.a. í andsvörum, að ekki liggi fyrir með skýrum hætti hverjir eru núverandi eigendur Arion banka og Íslandsbanka. Og af þeirri ástæðu einni er ekki ljóst að okkar mati hvaða áhrif samsetning eigendahópsins kann að hafa á sölu og ekki síður á framhald starfsemi þeirra fjármálastofnana sem til sölu kæmu.

Ég vil þó taka fram að í umræðunni í nefndinni kom skýrt fram, m.a. frá Bankasýslunni, að hún taldi ekki miklar líkur til þess að mikil eftirspurn væri eftir hlutum í Arion banka og Íslandsbanka í dag, en engu að síður tekur þetta frumvarp til þeirra. Menn horfðu, eins og kom fram hjá hv. þm. Birni Val Gíslasyni áðan, miklu fremur til þess að selja Landsbankahlutinn úr honum. Það er rétt að mati Landsbankamannanna sem mættu og Bankasýslunnar þá er í sjálfu sér ekkert mál að losna við hlut í Landsbankanum ef mál kunna að skipast með þeim hætti. Það er fyrst og fremst spurning um verðið og sölutímann. Þetta er ekki mikil stærð sem ætlunin er að selja miðað við fjárlögin fyrir næsta ár. Það eru 4 milljarðar af bókfærðu virði upp á 220 milljarða ef ég man rétt í Landsbankanum.

Hins vegar er ástæða til að ítreka það við umræðu um þetta mál hver afstaða Seðlabanka Íslands er gagnvart frumvarpinu. Seðlabankinn skilaði fjárlaganefnd umsögn sem var fremur neikvæð. Í umsögn hans kom meðal annars fram, sem við gerum að okkar orðum í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar, að Seðlabankinn telji að gera þurfi kröfur um að kaupandinn hafi flekklausan feril og geti staðið að baki bankanum þurfi hann á því að halda en ekki síður, sem er einnig mikilvægt atriði í mínum huga, að hafa þurfi mjög ríkt í huga þau áhrif sem sala á eignarhlut í fjármálafyrirtækjum sem ríkissjóðurinn er aðili að, kynni að hafa á erlenda stöðu þjóðarbúsins, gengi krónunnar og gjaldeyrisforða landsmanna.

Þetta eru meginefnin og megininntakið í nefndarálitinu. Eins og ég gat um áðan mæli ég fyrir því fyrir hönd okkar í minni hluta fjárlaganefndar.