141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[19:47]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég er þeirrar skoðunar að ástæða þess að umsögn Seðlabankans um málið er fremur neikvæð helgist fyrst og fremst af þeirri stöðu sem uppi er varðandi þessa svokölluðu snjóhengju og viðræður kröfuhafa bankanna, eigenda og Seðlabanka, og í rauninni alls fjármálageirans á Íslandi ásamt stjórnvöldum, með hvaða hætti við komumst best í gegnum þann skafl sem bíður okkar þar. Ég held að afstaða Seðlabankans mótist af stærstum hluta af þeirri stöðu sem þar er uppi.

Ég vil aðeins skýra betur af því ég gerði það á miklum hlaupum undir lok fyrra andsvars míns varðandi samþykki Alþingis til að taka ákvörðun um hvort það ætti að vera hluti af slíkri sölu. Ég mundi svara því með sama hætti, ég mundi vilja sjá útfærsluna á því. Ég hef verið þeirrar skoðunar að þær opnu heimildir sem eru í fjárlögum hvers árs séu ekki nægilega góðar til að efla fjárstjórnarvald þingsins. Ég held að þetta séu allt of opnar heimildir. Ef við getum einhvern veginn sammælst um að tryggja það að fjárlögin bindi hendur framkvæmdarvaldsins, Stjórnarráðsins, meira en gert hefur verið á grunni 6. gr. heimildar, þá eru öll skref í þá veru af hinu góða í mínum huga, ekki endilega til þess að setja mönnum stólinn fyrir dyrnar, heldur fyrst og fremst til þess að reyna að búa til betra regluverk og skapa og stuðla þannig að meiri aga og festu og virðingu fyrir því sem felst í þeim fjárlögum sem sett eru fyrir hvert ár hverju sinni.

Hluti af slíkri vinnu gæti falist í því að bera undir þingið, fjárlaganefnd, eða treysta þær heimildir betur (Forseti hringir.) sem þegar eru fyrir hendi. Þetta er spurning um útfærslu.