141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í greinargerð frumvarpsins stendur um 27. gr. að með ákvæði frumvarpsins sé lagt til að álagning gjaldsins, þ.e. gjalds á lífeyrissjóðina, á árinu 2013 og fyrirframgreiðsla þess 1. nóvember 2012 verði felld brott og þar með fjármögnun lífeyrissjóðanna á áðurnefndum 1,4 milljörðum af sérstakri vaxtaniðurgreiðslu.

Nú hef ég margoft varað við því að leggja álögur á lífeyrissjóðina vegna þess að það kemur bara niður á almennu sjóðunum. Opinberu sjóðirnir eru með ábyrgð ríkissjóðs og ríkissjóður borgar allan kostnað sem þeir bera. Þess vegna er spurning hvort það sé jafnræði, en það sem veldur því að ég get ekki greitt atkvæði með þessu er að það er fallist á það að lífeyrissjóðirnir greiði á árunum 2010–2011 þetta gjald. Það get ég ekki sætt mig við, einmitt af þeirri ástæðu að þetta kemur bara niður á almennu sjóðunum.