141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það var niðurstaða könnunar sem fram fór innan verkefnisstjórnar rammaáætlunar á sínum tíma að níu þeirra sem þar sátu lögðu til að þessi virkjun færi í nýtingarflokk, þrír lögðu til að hún færi í verndarflokk en enginn í biðflokk. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar er hins vegar sú að þessi virkjunarkostur eigi að fara í biðflokk. Þarna er greinilega verið að skauta fram hjá hinu faglega ferli, hinni faglegu niðurstöðu. Það vita allir hver ástæðan er, sú að það voru uppi svardagar af hálfu einstakra þingmanna á sínum tíma um stuðning við ríkisstjórnina nema það væri tryggt að engar virkjanir yrðu í neðri hluta Þjórsár. Það er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin leggur síðan fram sitt plagg.

Þessir virkjunarkostir hafa allir verið rannsakaðir út í hörgul. Nú er því teflt fram að þetta séu einhver rök varðandi laxastofninn í Þjórsá. (Forseti hringir.) Þær rannsóknir hafa hins vegar allar farið fram, þær upplýsingar liggja fyrir og þar er engin hætta á ferðum. Það blasir við. Eina hættan sem var á ferðum var sú að ríkisstjórnin félli. (Gripið fram í: Hvað með …?)