141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[15:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á 200., 201. og 202. gr. almennra hegningarlaga, sem fjalla um kynferðisbrot gegn börnum í fjölskyldu og öðrum trúnaðarsamböndum.

Í framhaldi af lagabreytingum sem gerðar voru síðasta sumar vegna fullgildingar Evrópuráðssamnings um vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu skoðaði refsiréttarnefnd ráðuneytisins hvort gera ætti breytingar á almennum hegningarlögum sem breyttu þeim ákvæðum laganna sem fjalla um kynferðisbrot hjá börnum þegar brotið er framið innan fjölskyldu eða trúnaðarsambands.

Við meðferð þess frumvarps sem lagði til breytingar vegna fullgildingar fyrrgreinds samnings í allsherjar- og menntamálanefnd kom til umræðu sá munur sem er á þeim lagaákvæðum er fjalla um kynferðisbrot gegn brotum innan og utan fjölskyldu. Lagði nefndin í nefndaráliti sínu ríka áherslu á að farið yrði yfir samhengi þeirra ákvæða kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga sem fjalla um kynferðisbrot gegn börnum í því skyni að endurskoða þann greinarmun sem er á refsihámarki eftir því hvort barn tengist geranda eður ei.

Frumvarp það sem hér er lagt fram er afrakstur þeirrar skoðunar. Með frumvarpinu eru lagðar til eins og áður sagði breytingar á ákvæðum 200.–202. gr. almennra hegningarlaga sem og 81. gr. laganna sem fjalla um fyrningu brota. Þær breytingar sem frumvarpið felur í sér eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að þegar um er að ræða kynferðisbrot gegn barni sem er undir kynferðislegum lögaldri, sem er 15 ár, sé ekki gerður greinarmunur á því hvort brotamaður er skyldmenni eða í trúnaðarsambandi við barn það sem brotið er á. Þannig verði 202. gr. hegningarlaganna, sem kveður á um að hver sem hafi samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 15 ára skuli sæta fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að 16 árum og sé um að ræða kynferðislega áreitni að ræða er fangelsi allt að sex árum, látin eiga við í öllum tilvikum. Þannig munu 200. og 201. gr. hegningarlaganna ekki lengur eiga við um þennan aldurshóp barna og þar með ekki gerður greinarmunur á því hvort brot er framið á barni innan fjölskyldu eða trúnaðarsambands eða af öðrum.

Þá er lagt til í öðru lagi að afnumið verði úr 200. og 201. gr. laganna að miða ákvæðin við 16 ára aldur brotaþola. Lagt er til að þessi ákvæði taki hér eftir til barna á aldrinum 15, 16 eða 17 ára.

Í þriðja lagi, í framhaldi af þeirri breytingu sem felst í afnámi 16 ára aldursviðmiðsins, munu 200. og 201. gr. laganna samkvæmt breytingartillögunum eiga við um brot gegn börnum á aldrinum 15, 16 eða 17 ára.

Lagðar eru til þær breytingar að sé um að ræða samræði eða önnur kynferðismök gegn börnum á þessum aldri og brotamaður er í fjölskyldu eða trúnaðarsambandi við barnið verði refsiramminn hækkaður úr átta árum í 12 ár. Sé um aðra kynferðislega áreitni að ræða liggi við því broti fjögurra ára fangelsi. Refsing fyrir kynferðismök gegn barni eða öðrum niðja sem eldri er en 18 ára verður áfram átta ár og ef um kynferðislega áreitni er að ræða er refsingin fjögur ár.

Í fjórða lagi. Lögð er til sú breyting að lögfest verði sérstök heimild til refsiþyngingar þegar kynferðisbrot er framið í trúnaðarsambandi brotamanns og barns undir 15 ára aldri. Er þessi tillaga í samræmi við samning Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun barna, en þar er gert ráð fyrir að gerðar verði þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að kynferðisbrot í trúnaðarsambandi geranda og barns verði virt til þyngingar við ákvörðun refsingar. Kemur þessi heimild til viðbótar hinni almennu heimild í 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga um þyngingu refsingar ef verknaður beinist gegn þeim sem er nákominn geranda.

Í fimmta lagi er lagt til að sök fyrir brot samkvæmt 1. mgr. 202. gr. laganna sem mælir fyrir um refsingu fyrir að hafa samræði eða önnur kynferðismök við barn undir 15 ára aldri fyrnist ekki.

Með lögum nr. 61/2007 var 81. gr. almennra hegningarlaga breytt á þann veg að afnuminn var fyrningarfrestur vegna brota gegn 194. gr., 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 201. gr. laganna þegar brot er framið gagnvart barni undir 18 ára aldri.

Samkvæmt núgildandi ákvæði fyrnist sök því ekki fyrir brot sem felst í samræði eða öðrum kynferðismökum við barn sem gerandi á í fjölskyldu- eða trúnaðarsambandi við.

Þar sem frumvarp þetta leggur til að í 202. gr. laganna verði framvegis kveðið á um brot gegn barni undir 15 ára aldri sem á í slíkum tengslum við gerandann er ljóst að breyta þarf 1. mgr. 81. gr. laganna til samræmis til þess að viðhalda því að sök fyrnist ekki gagnvart börnum yngri en 15 ára.

Ég hef hér gert grein fyrir ákvæðum frumvarpsins. Tel ég að hér sé um mikilvægt innlegg hvað varðar réttarvernd barna gegn kynferðislegri misnotkun að ræða. Með frumvarpi þessu eru kynferðisbrot gegn börnum undir 15 ára sett undir sama lagaákvæðið og þannig afnuminn sá greinarmunur sem í lagatexta hefur verið á því hvort brotið er gegn barni sem er í fjölskyldu eða trúnaðarsambandi við gerandann eða ekki.

Legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.