141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:20]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að sérstakt fyrirkomulag á þessu aðlögunartímabili verður ekki sambærilegt við það sem annars staðar gerist. Við höfum fengið mál af þessu tagi eða skyld mál, samanber iðnaðarsjóðsgjöldin og annað því um líkt þar sem reynt hefur að hluta til á sambærilega hluti. Hér má segja að þetta sé einhvers konar lögformlegur umbúnaður um valkvæða sameiginlega innheimtu á þessum gjöldum á ákveðnu tímabili og aðlögun. Í rauninni er ekkert verið að fela það, þetta er bara hugsað til þess.

Menn hafa einnig nefnt í mín eyru að það sé kannski viðkvæmara en ella að hrófla við þessu nákvæmlega núna þar sem svo vel hefur loksins tekist til að búið er að gera kjarasamninga milli Landssambands smábátaeigenda og þeirra sjómanna. Það felur í sér vissa hluti sem kannski þarf að passa upp á að gangi vel. Hér er um að ræða allt annað og svo miklu minni gjaldtöku hlutfallslega af verðmætunum en hið stóra greiðslufyrirkomulag sem hv. þingmaður réttilega nefndi að var við lýði. Það ætti ekki að vera eins mikið tiltökumál fyrir menn. Ef þetta er praktískt í framkvæmd og þýðir að því fylgi minni röskun að feta sig inn í hið nýja fyrirkomulag í gegnum aðlögunarferli af þessu tagi í þrjú ár held ég að það sé sanngjarnt að skoða að minnsta kosti ofan í kjölinn hvort það sé ekki ásættanleg niðurstaða í málinu.