141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

þróun launakjara kvenna hjá hinu opinbera.

[11:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Vandinn í þessari umræðu er meðal annars sá að þrátt fyrir yfirlýsingar og fyrirheit hefur okkur ekki miðað nægjanlega vel fram veginn. Ég held að allir hér inni séu sammála um, og reyndar held ég að það sé víðtæk sátt um það í samfélaginu og skilningur á því, að það er alvarlegt vandamál að ekki skuli gilda launajafnrétti hér í raun. Það er engin spurning að að lögum er það svo en raunveruleikinn blasir við og er annar. Á því verðum við að taka.

Það er óásættanlegt að launamunur virðist vera jafnvel meiri hjá hinu opinbera en á almenna markaðnum. Af því að hér var að því vikið að þetta væri einhvers konar birtingarmynd þess hvernig kapítalisminn mæti fólk þarf auðvitað að spyrja sig hvernig hæstv. ríkisstjórn sem nú situr metur fólk.

Á þriðjudaginn kom fram í máli hæstvirts ráðherra að sett hefur verið fram enn ein ný stefna til að bregðast við aðgerðum ríkisstjórnarinnar undanfarin missiri og ár. Aðgerðir í ríkisfjármálum og ríkisrekstri eru bara á ábyrgð eins aðila, virðulegur forseti, núverandi hæstv. ríkisstjórnar. Nú stendur hæstv. ráðherra upp og segir: Það þarf að bregðast við okkar eigin aðgerðum.

Virðulegur forseti. Málið er alvarlegt og um það á að ríkja góð sátt, en þær aðgerðir sem gripið er til verða að vera markvissar og ná árangri. Fyrst og síðast er að tryggja (Forseti hringir.) og gera allt sem hægt er að gera til að breyta hugarfari þannig að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði sé ekki bara að lögum heldur í raun, bæði hjá hinu opinbera (Forseti hringir.) og á almennum markaði.