141. löggjafarþing — 73. fundur,  28. jan. 2013.

útgáfa og meðferð rafeyris.

216. mál
[17:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu um afskaplega áhugavert mál. Ég vildi spyrja hann um fyrninguna sem var bent á að væri ekki í samræmi við fyrningu innlána, en þetta væri á margan hátt innlán vegna þess að því er haldið sérgreindu utan við rekstur viðkomandi fyrirtækis og tapast til dæmis ekki við gjaldþrot og menn eiga rétt á að fá þetta endurgreitt hvenær sem þeir vilja samkvæmt samningi þar um.

Það sem ég vil spyrja hv. þingmann um er hvort hann telji eðlilegt að venjuleg innlán fyrnist á 20 árum í 2,5% verðbólgu. Af því að innlánin sem fyrnast eru án vaxta þá rýrnar upphæðin í 2,5% verðbólgu í 20 ár um 40%, þ.e. hún verður ekki nema 61% af upphaflegu upphæð að verðgildi. Þá er ég að tala um 2,5% verðbólgu, frú forseti, sem aldrei hefur náðst hér á landi. Ef gengið er út frá 5% verðbólgu í 20 ár þá rýrnar upphæðin um 63%, fer niður í 37%. Er í rauninni verið að gefa bönkunum þessar innstæður með því að hafa þær vaxtalausar í þetta langan tíma? Væri ekki miklu skynsamlegra að stytta þennan tíma hjá bönkunum, eins og hjá rafeyrisfyrirtækjunum, og hafa hann skikkanlegan, sex ár eða eitthvað slíkt, og að viðkomandi stofnun tilkynni eiganda innstæðunnar sem á að liggja fyrir hver er að innstæðan hafi ekki verið hreyfð í sex ár og spyrji hvort hann óski eftir því að hún haldi áfram að vera óhreyfð eða hvort hann vilji fá hana greidda í staðinn fyrir að innlánsstofnanirnar hirði hana eftir 20 ár?