141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

rannsókn á Icesave-samningaferlinu.

[13:44]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér finnst að við eigum ekki í þessum sal að ætla neinum alþingismanni á Alþingi Íslendinga þá smæð að hafa ekki glaðst yfir sigri okkar í gær. (Gripið fram í.) Ég vona að hv. þingmaður hafi ekki verið að reyna að láta liggja að einhverju öðru, eins óskaplega feginn og maður er í voninni um að þetta mál sé frá okkur tekið. Ekkert okkar hefur haft af því mikla ánægju að þurfa að glíma við það. Ekki báðum við um það, ekki bjuggum við það til sum hver sem fengum það þó engu að síður í hendur.

Ég held í öðru lagi að ekki sé hægt, ef við viljum líta á þetta mál í heild sinni og velta fyrir okkur þjóðhagslegu vægi þess, að horfa fram hjá því mikla tjóni sem það hefur valdið, svo ég tali nú ekki um það tjón sem hefði hlotist af því ef við hefðum ekki glímt við það og reynt að leysa það, því í gegnum það þrátt fyrir allt komumst við þó áfram. Við fengum fyrstu endurskoðunina í lok október 2009 vegna þess að það var verið að reyna að leysa málið. Við unnum mikinn sigur (Forseti hringir.) í apríl 2010 þegar við fengum aðra endurskoðun þrátt fyrir þá stöðu sem málið var þó í. Þetta er um það bil níu mánaða töf á endurreisn Íslands, á samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, (Forseti hringir.) sem var auðvitað forsenda þess að við kæmum öðrum hlutum af stað eins og allir vita.