141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skipting makrílkvótans.

[13:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir miklar og ítarlegar viðræður á milli Íslands, Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins hefur ekki fengist niðurstaða um úthlutun á makrílkvótanum og hvernig honum skuli skipt. Nú hafa Noregur og Evrópusambandið gefið út kvóta sem nemur um 90% af ráðgjöf fiskifræðinganna og hafa af miklu örlæti að þeirra eigin mati skilið eftir um 10% fyrir okkur, Færeyinga og aðra sem koma til með að veiða úr stofninum. Síðan leyfa þeir sér í framhaldinu, þegar við Íslendingar gefum út okkar kvóta, sem við höfum auðvitað fullan rétt á, að saka okkur um ofveiði og óábyrgar fiskveiðar.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvenær hann hyggst gefa út heildarafla fyrir komandi makrílvertíð á Íslandi vegna þess að það þarf auðvitað að hafa ákveðinn fyrirvara sem snýr að því að fyrirtæki þurfa að undirbúa sig og gera klárt fyrir vertíðina. Er eftir einhverju að bíða, hæstv. ráðherra, að gefa út kvótann?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra, vegna þeirrar miklu gagnrýni sem kom fram þegar kvótanum var úthlutað í upphafi, sérstaklega þegar var verið að búa til viðmiðunina og menn veiddu mikið í gúanó, hvort hann hafi skoðað það eða hyggst skoða það að breyta skiptingunni á milli útgerðarflokkanna, þ.e. milli þeirra sem hafa viðmiðunina, síðan frystitogaranna, ísfiskskipanna og loks krókaaflamarksbátanna.

Þessa tvenns spyr ég hæstv. ráðherra: Hvenær hyggst hann gefa út kvóta okkar Íslendinga í makrílveiðum? Hyggst ráðherra breyta einhverju í skiptingu milli útgerðarflokka?