141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[13:31]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæða er til að fagna því að við höfum náð þeim áfanga að vera komin hingað til 2. umr. um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Málið er nú til efnislegrar umræðu og að mínu mati er mikilvægt að þingheimur taki faglega og efnislega á því. Ég er afar sáttur við þá umræðu sem fram hefur farið hér, bæði í gær og það sem af er þessum degi; mörg álitaefni hafa verið reifuð og málefnalega farið yfir þessa hluti.

Það skiptir máli og hjálpar til við þessa yfirferð, sem þarf auðvitað að vera ítarleg, að allar þingnefndir hafa komið að málinu. Þingmenn eru vel upplýstir og inni í málinu eins og þeir hafa haft tækifæri til. Umsagnir eru margar og margbreytilegar og málið vel unnið í alla staði. Eðlilega hafa komið fram athugasemdir og ábendingar. Eins og sjá má á þeirri yfirferð og því nefndaráliti sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fyrir hefur tillit verið tekið til fjölmargra þeirra. Málið hefur tekið nokkrum breytingum. Sérstaklega hefur verið horft til skýrleika og innra samræmis í þeim greinum sem hér eru til umfjöllunar.

Rétt er að horfa til lykilþátta málsins þegar tekist er á um einstök atriði. Í þeim tillögum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram, og unnið á grundvelli þeirrar tillögu sem stjórnlagaráð vann og þjóðin hefur sagt álit sitt á, er lagt upp með þá áherslu að sækja fram með breytingar. Við erum ekki að fara fram með stjórnarskrá í nánast óbreyttu ástandi eða með einhverjum lítils háttar breytingum. Það er skýr vilji þjóðarinnar að gerðar verði breytingar. Auðvitað hlýtur frumvarpið og sú tillaga sem fyrir liggur, ef hún á að vera í anda þess vilja sem þjóðin hefur látið í ljós, að taka mið af því, annars væri ekki um neinar breytingar að ræða.

Rétt er að taka fram, eins og ítrekað hefur verið í þessari umræðu, að það hefur verið og er vilji stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í það minnsta meiri hluta hennar, ég gat ekki skilið það öðruvísi en svo, að um það hefði verið samkomulag og samhljómur að nefndin nýtti tímann vel því að vissulega er hann takmarkaður, það gera sér allir grein fyrir því. Takmarkaður tími kallar á það að menn skipuleggi tímann vel og nýti hann vel. Samhljómur var um að menn nýttu tímann, eins og kemur fram í nefndarálitinu, til að yfirfara efnisatriði sem sérstaklega höfðu verið tekin til hliðar milli 2. og 3. umr., að nefndin nýtti tíma sinn í vinnu við þá þætti sem lúta að stjórnkerfinu sjálfu og Feneyjanefndin er með til úrvinnslu — við fáum mat hennar og umsögn einhvern tímann á næstu dögum — og önnur atriði sem einnig hafa tekið ýmsum breytingum í yfirferð og umræðu í nefndinni.

Ég nefni sérstaklega kosningakaflann. Við hann höfðu verið gerðar ýmsar athugasemdir sem lutu að því að verið væri að færa inn í stjórnarskrá allt of ítarlega og djúpa útfærslu á kosningafyrirkomulaginu og að nær væri að þeir þættir kæmu fram í kosningalögum. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur tekið fullt tillit til þess. Ég hef ekki skynjað annað en að um það sé góð sátt og samkomulag í nefndinni, að rétta leiðin hafi verið lögð til, þ.e. að takmarka textann í 39. gr. við lykilþætti málsins en gefa sér hins vegar tíma milli umræðna til að átta sig betur á því hvað sá rammi sem þar er teiknaður upp, varðandi jöfnun atkvæða, varðandi kjördæmaskipan, varðandi persónukjör og ýmsa aðra þætti, gæti innihaldið í útfærslu á kosningalögunum. Útfærslan getur auðvitað verið margbreytileg en ljóst er að verið er að teikna ákveðinn ramma utan um það hvernig slík lög geta litið út og hvaða svigrúm Alþingi hefur til að útfæra þau í lagasetningu. Ég tel mjög mikilvægt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem er með þetta mál í fanginu, hafi tíma og tækifæri til að fara yfir það á næstu dögum og vikum í þingsal á meðan málið er í frekari yfirferð og umræðu hvað aðra þætti snertir.

Ég nefndi stjórnskipunarþáttinn. Það er mikilvægt að við fáum viðbrögð Feneyjanefndar við þeim þáttum sem að því lúta. Vissulega er tíminn takmarkaður, eins og ég nefndi áðan, en hann er nægur ef vilji er fyrir hendi til að fara í gegnum þessi mál og ljúka umræðunni með sóma. En það reynir auðvitað á vilja meiri hluta þingsins til að halda hér uppi málefnalegri umfjöllun um málið. Í því ljósi er kannski ástæða til að renna aðeins yfir það hvernig þessi umræða hefur verið, bæði á þingi og í samfélaginu, þar sem menn hafa tínt til ýmsa gagnrýnisþætti. Auðvitað eiga menn að leggja við eyru og hlusta þegar slík umræða fer fram en það þýðir ekki að sjálfsagt sé að fara eftir allri gagnrýni því að hún sé sett þannig fram að ekki sé annað hægt en taka mark á henni.

Það hefur verið sagt að málið sé óreifað, það er mjög vinsæll frasi í umræðunni. Segja hverjir? Fyrst og fremst þeir sem hafa hvorki vilja né áhuga á því að þessi umræða fari fram, hvorki með eðlilegum hætti né að hér verði einhverjar þær breytingar gerðar á stjórnarskránni og stjórnskipaninni sem umræddar tillögur gera ráð fyrir. Það er líka vinsælt í umræðunni að halda því til streitu að enginn tími sé til umræðu. Deilt er um form og vinnuferli, skipulag og í raun allt annað en efni og innihald, fyrr en loksins nú þegar við erum komin í hina efnislegu umræðu sem skiptir auðvitað öllu máli.

Það hefur því miður sýnt sig á þeim langa tíma sem málið hefur verið hér til umfjöllunar að hægt er að eyða tímanum í annað en umræður, kannski fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að umræðan eigi sér stað. Talað er um of mikinn hraða. Staðreyndin er sú að málið hefur verið til skoðunar og yfirferðar í vel á annað ár. Allir þingmenn og allar þingnefndir hafa haft tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og taka þátt í yfirferð, að ég tali ekki um aðkomu almennings sem hefur verið mjög virkur í þessu máli og virkari en nokkru sinni áður í nokkru því máli sem Alþingi hefur haft til umfjöllunar.

Rætt hefur verið um að ekki sé um vandaða yfirferð að ræða, að hún sé ófagleg. Það er þetta gamla trikk í bókinni: Ef ég er á móti einhverju og rökin eru ekki öll til staðar þá er um að gera að sá fræjum tortryggni og hafa þau sem flest. Þetta er allt gamalkunnugt. Mér fannst það endurspeglast í upphafi þessarar umræðu, áður en hún fór af stað hér í þingsal í gær, þegar gert var upphlaup út af því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði boðað til fundar til að fara í frekari úrvinnslu og yfirferð á svigrúmi og möguleikum varðandi 39. gr. sem ég vék að áðan. Hverjir óskuðu eftir þeirri umræðu? Hverjir voru það sem höfðu kallað sérstaklega eftir því að nefndin fengi tækifæri til að átta sig betur á því hvað þessar breytingar sem meiri hlutinn leggur fram gætu falið í sér? Það voru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem óskuðu eftir þeirri yfirferð í nefndinni. Daginn eftir rjúka þingmenn sama flokks upp og gera stórfelldar athugasemdir við það að fara eigi í slíka umræðu. Auðvitað eru svona hlutir ekkert annað en ákveðinn leikaraskapur, það er ekki hægt að segja neitt annað.

Í þessari umræðu er mikið rætt um gagnrýni fræðasamfélagsins. Auðvitað er ekki nema eðlilegt að skoðanir séu skiptar í fræðasamfélaginu. Fræðasamfélagið er ekki eitthvert einhlítt skoðanamótandi yfirvald í einu og öllu. Við vitum að þeir sem telja sig sérfróða í ýmsum þeim þáttum sem þessar breytingar og tillögur taka til hafa eindregið lýst því yfir að þeir vilja halda sem mest í óbreytt skipulag, forðast stórbreytingar og óvissu. Það er auðvitað afstaða út af fyrir sig en það þarf ekki að þýða að allar breytingar séu til hins verra, síður en svo. Ég held að menn geti ekki horft til þeirrar gagnrýni sem kemur fram undir þeim merkjum að vera ættuð úr hinu svokallaða fræðasamfélagi eins og hún sé algildur sannleikur. Sú gagnrýni er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt innlegg í umræðuna sem ber að hlusta og hlýða á, en allir fyrirvarar á því hvernig menn vega og meta þá gagnrýni sem fram kemur eru eðlilegir.

Ýmsir þættir sem nefndir hafa verið eiga fullan rétt á sér og hafa verið teknir til yfirferðar og endurskoðunar, bæði í vinnu einstakra þingnefnda á undanförnum vikum og í breytingartillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem snúa að orðalagi og að sumu leyti efnisbreytingum, um 50 liðir. Það er ekki eins og ekki hafi verið hlustað á eitt eða neitt í þeirri umræðu sem staðið hefur yfir á undanförnum mánuðum og missirum. Þvert á móti hefur verið farið yfir þessa þætti fram og til baka og því hefur jafnframt verið lýst yfir að fullur vilji sé til að halda þeirri gagnrýnu umræðu áfram og gefa svigrúm og tækifæri til þess að ræða þau mál í nefnd samhliða því að umræðan fer fram í þingsal til að nýta tímann sem best.

Í tillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur eðlilega verið vísað til þess skýra vilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þjóðin hefur aldrei fengið eins virka aðkomu og þátttöku í nokkrum breytingum sem þingið hefur fjallað um. Málið hefur í grunninn verið unnið á forsendum og eftir vilja þjóðarinnar. Það er holur hljómur í því þegar sú gagnrýni heyrist í umræðunni að það sé ekkert að marka slíka þjóðaratkvæðagreiðslu og að ekki sé mark takandi á slíkum þjóðarvilja.

Einnig er lagt upp með í umræðunni að ekki sé hægt að fara í stjórnskipunarbreytingar eins og þær sem hér eru til umræðu nema um þær sé einróma sátt, breið og almenn sátt. Auðvitað er það æskilegast af öllu ef tekst að ná slíkri sátt, en hefur það alla tíð verið með þeim hætti í þeim breytingum sem gerðar hafa verið á stjórnarskrá Íslands frá því að við settum okkur þá fyrstu 1944? Ýmsir stilla málinu upp á þann veg að það sé einn og sami farvegurinn sem þessi mál hafa alltaf farið í, en það er öðru nær. Það þekkja þeir sem hafa sett sig inn í þessi mál að oftar en ekki hafa verið harðar deilur og skiptar skoðanir um þær meginbreytingar sem gerðar hafa verið á stjórnarskránni, eins og 1944 þegar hún var sett upphaflega og aftur á sjötta áratugnum.

Á stundum hefur tekist að ná breiðri samstöðu um ákveðnar breytingar, stórar og smáar. Spurningin hlýtur líka að vera: Á stór eða lítill minni hluti þingsins að geta haldið málum föstum frá þjóðarvilja og því að sá þjóðarvilji fái að koma fram? Ég tala nú ekki um þegar það liggur skýrt fyrir, eins og í þessu tilfelli, að þjóðin hefur verið spurð og hennar álit liggur fyrir varðandi alla megindrætti málsins.

Í umræðunni hefur einnig verið ýjað mjög að því að ekki hafi farið fram nein yfirferð á umsögnum. Ég nefndi það kannski áðan hvað það er sérstakt í þessu máli að allir þingmenn hafi verið virkjaðir til umfjöllunar og yfirferðar og að allir þingmenn hafi haft tækifæri til að kynna sér ítarlega og leggja fram álit sitt og mat á því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur allt frá því í fyrravetur verið farið yfir og ræddar á breiðum grunni þær fjölmörgu ábendingar og athugasemdir sem bárust frá nefndum þingsins og komu fram í nefndarálitum. Málið var í sjálfu sér ekkert á byrjunarreit þegar einstakar þingnefndir fengu það til sérstakrar yfirferðar og umfjöllunar á aðventu, heldur var það til þess að fá enn dýpri og breiðari yfirferð yfir einstaka þætti málsins til viðbótar við þá vinnu sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði farið yfir á síðastliðnu þingi og aftur á þinginu núna frá því í haust. Ýmsar nýjar ábendingar hafa komið fram og álitaefni sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur skoðað sérstaklega og þess sér berlega stað í breytingartillögum og nefndarálitum.

Það sem mér hefur fundist athyglisverðast eða sérstakast í þeirri gagnrýni sem beint hefur verið að þessu máli og öllu sem að því snýr er að kerfið og samfélagið muni ekki þola þær breytingar sem svo stórtæk uppstokkun á stjórnarskránni felur í sér, það sé ekki undirbúið og breytingarnar kalli á mikla óvissu í öllu samfélaginu. Ég gat ekki betur heyrt en að sérstök fréttatilkynning sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sendi frá sér við upphaf þessarar umræðu í gær hefði gengið út á það sama, að hér væri lagt af stað í stjórnskipulega óvissuferð.

Það segir sig sjálft að ekki er hægt að meta áhrif af öllum hlutum sem breytt er. Við höfum kallað eftir ákveðnu mati og álagsprófi hjá Feneyjanefndinni varðandi stjórnskipunarþáttinn. Það er eðlilegt að við horfum til þess þegar við fáum þau svör og þær umsagnir í hendur. Um það erum við sammála. En maður hlýtur að spyrja: Á þá engu að breyta af því að við getum ekki séð til framtíðar hvað gerist mögulega eða hugsanlega eða gerist ekki? Þetta hlýtur að vera spurning um ákveðna skynsemi og vilja til þróunar og breytinga.

Það er líka rétt að hafa í huga að stórir þættir í því sem lýtur að mannréttindakafla stjórnarskrárbreytinganna felast í því að verið er að færa inn í stjórnarskrá orðalag og útfærslu á hlutum sem Alþingi hefur á undanförnum árum fært inn í lagatexta samfélagsins. Það má segja að þar komi stjórnarskráin á eftir lagasetningu þingsins. Í öðrum tilfellum er vissulega verið að móta nýjar áherslur og stefnur, sem menn geta deilt um, í nýrri stjórnarskrá en það þýðir um leið að kallað er eftir því að þingið bregðist við með útfærslu í lögum til að koma í veg fyrir að óvissa skapist umfram það sem þörf er á. Í einhverjum tilfellum, eins og sérstaklega er vikið að í sambandi við 15. gr., að mig minnir, í stjórnskipunartillögunum, sé rétt að horfa til þess að jafnvel verði sett inn bráðabirgðaákvæði til að gefa tímafrest svo að samfélagið og stjórnkerfið geti brugðist við þeim tillögum og þeim nýju áherslum, rétti sem verið er að tryggja þjóðinni með þeim breytingum sem lagðar eru til.

Staðreyndin er sú að allir vita að ekki er hægt að gera breytingar á stjórnarskrá án þess að það skapi tímabundna óvissu, það segir sig sjálft. Málið snýst miklu frekar um það hvernig menn bregðast við og vinna með þær breytingar sem samþykktar eru. Það er auðvitað verkefni Alþingis og engra annarra að taka á því máli og sinna því. Alþingi þarf alltaf svigrúm til að laga löggjöf að breyttum stjórnarskrárákvæðum og stjórnsýslan þarf líka við vissar aðstæður tíma og svigrúm til að mæta breytingum. Ég spyr enn og aftur vegna þess að svo er eðlilega í pottinn búið: Þýðir það að við eigum ekki að sækja fram með breytingar af því að það hefur rask og fyrirhöfn í för með sér? Er það þess vegna sem hluti fræðasamfélagsins leggst svo eindregið gegn því að farið sé fram með breytingar, af því að það kallar á fyrirhöfn, það kallar á eitthvert rask? Í mínum huga eru það engin rök, það er undansláttur. Breytingar þurfa og eiga að fá að þróast eðlilega og við eigum að vera óhrædd við að sækja fram með aukin réttindi og betra samfélag.

Virðulegi forseti. Í yfirferð og vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á undanförnum vikum og mánuðum hefur, eins og ég nefndi áðan, verið horft til þess að halda sem mest í þann anda og þær tillögur sem stjórnlagaráð lagði fyrir Alþingi. Við höfum yfirfarið þau atriði og horft til ábendinga og tillagna frá fastanefndum og í umsögnum sérfræðinga. Við frekari yfirferð höfum við í ákveðnum tilfellum fært aftur inn upphaflega tillögu stjórnlagaráðs sem hafði verið breytt í fyrri yfirferð málsins og við höfum auk þess skerpt á tillögum stjórnlagaráðs og bætt orðalag. Mikilvægast í þeim þætti þessa máls sem hafinn er með umræðum í þingsal er að hlusta á þá gagnrýni sem sett er fram með málefnalegum hætti og geta lagt málið inn til efnislegrar umræðu og málsmeðferðar hvað varðar innihald. Frekari vinnsla fyrir 3. umr. í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er mikilvægur þáttur í framhaldi verksins þegar fyrir liggur hvað við lesum út úr þeirri efnislegu umræðu sem mun fara fram í þingsal.

Ég vék áðan að mannréttindaákvæðum og það er rétt að nefna þau sérstaklega, af því að þau vega mjög þungt í þeim lykilbreytingum sem verið er að gera í nýrri stjórnarskrá og eru að mínu mati einn allra mikilvægasti þátturinn í þeim breytingum sem við erum að fara yfir. Í þeim eru fólgin margháttuð nýmæli, svonefnd þriðja kynslóð mannréttinda. Kallað hefur verið eftir heildstæðu mati á áhrifum þess að taka slíkar nýjungar inn í stjórnarskrá. Það er ljóst að aldrei verður hægt að meta nákvæmlega hvaða breytingar á mannlegri hegðun nýjungar sem þessar munu hafa í för með sér, og það er rétt að hafa það í huga.

Í stjórnarskránni er þegar að finna ákvæði um að með lögum skuli tryggja rétt manna til aðstoðar vegna sjúkleika, atvinnuleysis og sambærilegra atvika. Í kjölfar þess hefur verið sett löggjöf, m.a. á sviði heilbrigðisþjónustu og menntunar. Á sama hátt þarf að laga núgildandi löggjöf að hinum nýju stjórnarskrárvörðu réttindum. Þau eru hins vegar tryggð í almennum lögum að verulegu leyti nú þegar. Má þar nefna ný upplýsingalög, sem þingið afgreiddi fyrir örfáum vikum, fjölmiðlalög og önnur eldri lög sem snerta þennan málaflokk. Í lögum um heilbrigðisþjónustu frá 2007 segir meðal annars að markmið laganna sé að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita á hverjum tíma til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði í samræmi við ákvæði laga um sjúkratryggingar, um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á. Á sama hátt er markmið laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ekki verður því annað séð en að hér sé um að ræða ágætt samræmi í frumvarpinu sem hér liggur fyrir og gildandi löggjöf. Hins vegar kann að vera rétt að árétta í ákvæðum sem um ræðir að réttindi skuli tryggð með lögum eftir því sem við á.

Ég vek athygli á því að í breytingartillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eru 14., 15., og 16. gr., sem lúta að tjáningar- og upplýsingafrelsi, að aðgangi að opinberum gögnum og frjálsri og upplýstri þjóðfélagsumræðu, færðar inn að nýju frá því sem var upphaflega í frumvarpi stjórnlagaráðs. Fram kom skýr gagnrýni, með réttu, á þær breytingar sem svokölluð sérfræðinganefnd gerði á umræddum greinum þess efnis að þær væru efnislegar og drægju úr vægi þess sem upphaflega hafði verið lagt til í frumvarpi stjórnlagaráðs. Allsherjar- og menntamálanefnd fór ítarlega yfir þetta mál og vekur athygli á þessum þáttum. Ég vísa til umsagnar nefndarinnar sem er mjög tæmandi og góð. Þar er sérstaklega vikið að ákvæði varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi sem heimili til dæmis að sett séu lög sem hamli aðgengi að einstökum vefsvæðum og því sé mikilvægt að tryggja að aðgengi almennings að neti sé opið í þágu upplýstrar umræðu og lýðræðis. Skerðing á þessu aðgengi yrði einungis gerð í undantekningartilfellum í samræmi við 2. mgr. 9. gr. þar sem mjög rík sjónarmið væru fyrir hendi til að takmarka slíkan aðgang, til að mynda að vefsíðum sem dreifa eða veita aðgang að barnaklámi. Mjög mikilvægt er að þessir þættir séu skýrir. Ég tek heils hugar undir þá breytingartillögu sem kynnt hefur verið, að taka þessa grein óbreytta inn að nýju eins og stjórnlagaráð lagði til.

Varðandi aðgang að opinberum gögnum er vissulega um nokkuð flóknara mál að ræða. Þar er verið að setja fram ákvæði um mjög aukinn rétt til aðgangs að opinberum gögnum. Það er mjög jákvætt að hafa slík ákvæði í stjórnarskrá. Við höfum nýlega, eins og ég nefndi áðan, fjallað um og afgreitt upplýsingalög þar sem tekið er á þessum málum á mun opnari og víðari hátt en áður var. Um það atriði náðist breið sátt, bæði í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og í þingsal. Það liggur hins vegar fyrir að með vísan til þeirra markmiða sem sett eru fram í 15. gr. er horft til þess að stjórnkerfið, eins og það er í dag, er ekki undir það búið að geta veitt almenningi þann rétt sem þar er veittur. Það er eðlilegt að gefið sé ákveðið svigrúm og tími til að mæta þeim verkum og skyldum og að á sama hátt sé horft til þess við lagasetningu hvar undantekningarákvæði þurfi að vera til staðar, til að mynda gagnvart dómstólum. Þess vegna er ekki óeðlilegt að ákveðið bráðabirgðaákvæði sé með gildistíma rétt eins og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var sammála um að setja, að mig minnir, þriggja ára aðlögunartíma í nýjum upplýsingalögum varðandi stöðu smærri sveitarfélaga þar sem íbúatala er 1.000 eða lægri til að geta mætt skyldu sinni til að veita upplýsingar úr skjalasöfnum sínum og erindum með sama hætti og gerð er krafa um gagnvart almennum ákvæðum upplýsingalaga.

Mig langar að ræða aðeins frekar um 39. gr., um alþingiskosningar. Það er ljóst að sú grein, eins og hún var fram sett af hálfu stjórnlagaráðs, hefur vakið margvíslegar umræður. Þar var reynt að ná í nokkuð löngu máli utan um ýmsa þætti til breytingar, að mínu mati til framfara, varðandi kosningalöggjöf. Ákvæðið var hins vegar þannig útfært að auðvelt var að skapa um það djúpa umræðu og ágreining. Ég samsinni þeim áherslum sem komið hafa fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að eðlilegra sé að draga út í 39. gr. lykilatriði sem lúta að þeim efnislegu þáttum og þeim ramma sem menn telja rétt að sé til staðar í kosningalöggjöf, lykilforsendurnar, en Alþingi hafi hins vegar það verkefni að teikna endanlega upp það kosningakerfi innan þess ramma sem menn geta náð góðri sátt um.

Lykilatriði í þeim áherslum sem stjórnlagaráð setur fram varðandi kosningalög er að tekið sé á þeim þáttum sem lúta að misvægi atkvæða. Gerðar hafa verið alvarlegar athugasemdir við stöðu okkar hvað þetta snertir og er rétt að rifja upp að þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar voru á kosningalögum 1987, þegar tryggt var nær fullt jafnvægi milli flokka, hefur á engan máta tekist að ná sambærilegu jafnvægi milli kjördæma. Rétt er að hafa í huga að lengi framan af kaus þriðjungur kjósenda meiri hluta þingmanna. Ég geri mér hins vegar fyllilega grein fyrir því að þetta er atriði sem skiptir máli að breið sátt náist um. Þau sjónarmið eiga fyllilega rétt á sér líka er varða aðstöðumun og að hægt sé að mæta þessu ákvæði með útfærslu sem tryggi að landsbyggðarkjördæmi eigi ákveðna stöðu og tryggingu í þessum efnum varðandi hlut sinn á Alþingi. Ég tel rétt að Alþingi fái til þess svigrúm og tíma að fara ítarlega yfir þetta en innan þess ramma sem settur er upp í tillögum stjórnlagaráðs verði reynt að ná sem mestri jöfnun á vægi atkvæða, horft verði til þess hvernig útfæra skuli persónuval og persónukjör því að þar er verið að auka rétt og bæta stöðu kjósenda. Ég tel einnig eðlilegt að gefinn sé tími í að fara nánar yfir þá þætti sem lúta að þröskuldi til að öðlast rétt á kjörnum fulltrúum, þröskuldi sem miðast í dag við 5%. Uppi hafa verið ólík sjónarmið um hvort slíkur þröskuldur eigi yfir höfuð að vera eða hvort færa eigi hann í lægri prósentu. Markmiðið með kosningarammanum er að draga úr misvægi og auka valfrelsi.

Virðulegi forseti. Ég sé að tíminn líður. Mig langaði að nefna VII. kafla, um sveitarfélög, þar sem mér er málið skylt. Ég fagna því að þessi ákvæði séu komin inn og sveitarfélögin eigi að fá sess og stöðu í stjórnarskránni umfram það sem áður hefur verið. Hér eru mörg merk nýmæli og í heild sinni stendur þessi kafli vel undir sér og á ekki að þarfnast mikilla breytinga. Ég tel hins vegar rétt að 106. gr. verði skoðuð frekar varðandi nálægðarregluna, þar sem segir:

„Á hendi sveitarfélaga, eða samtaka í umboði þeirra, skulu vera þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið undir staðbundinni stjórn þeirra …“

Hér er ákveðið orðalag sem ástæða er til að menn hugi betur að. Hvað er nákvæmlega átt við með samtökum í umboði sveitarfélaga? Hversu víðtækt er það? Ég vek athygli á umsögn umboðsmanns Alþingis hvað þetta atriði varðar en vísa um leið til ítarlegrar umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi ýmsa þætti málsins, þar á meðal þetta atriði þó að vísu sé ekki tekið undir þau sjónarmið og þær áherslur sem koma fram hjá umboðsmanni Alþingis. Ég tel rétt að menn gefi sér tíma til að fara aðeins betur yfir þessi atriði. Það snýr líka að 72. gr., sem ekki er inni í þessum kafla, varðandi skuldbindingar ríkis og einfaldar ábyrgðir. Það þarf að horfa á það atriði, sérstaklega varðandi túlkunina á því, með hvaða hætti, þ.e. hvort það nái á einhvern hátt til sveitarfélaganna vegna þess að annar lagarammi gildir gagnvart sveitarfélögunum varðandi slíkar ábyrgðir sem vert er að hafa í huga og skoða sérstaklega.

Ég tel líka rétt, virðulegi forseti, að víkja aðeins að 113. gr. sem er mjög mikilvæg og ástæða til að þingheimur ræði ítarlega sem hann mun væntanlega gera varðandi það hvernig standa eigi að breytingum á stjórnarskrá. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur farið ítarlega yfir þetta mál og átt samræður við ýmsa fræðimenn. Þar hafa sjónarmið verið ólík. Einn helsti talsmaður okkar og fræðimaður á þessu sviði, Björg Thorarensen prófessor, hefur verið þeirrar skoðunar, eins og komið hefur fram í áliti og umsögnum, að setja eigi mjög háa þröskulda í þeim efnum. Horft hefur verið til Danmerkur í því tilfelli þar sem krafa er um samþykki 40% þeirra sem eru á kjörskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu og jafnframt ákvæði um tvö þing eins og við þekkjum hér heima. Slíkt ákvæði gæti haft það í för með sér, miðað við 50–60% þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu, að allt að 80% þjóðarinnar þyrftu að samþykkja breytingu svo að hún næði í gegn. Mér þykja það ansi háir og miklir þröskuldar. Ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur haft ákveðnar skoðanir í þessum efnum og hef ég tekið undir margt hjá honum. Ég tel rétt að skoða þennan þátt sérstaklega. Það er mikilvægt að um þetta náist samkomulag. Sumir eru þeirrar skoðunar að engir þröskuldar eigi að vera, það eigi bara að vera einfaldur meiri hluti í þingsal og einfaldur meiri hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er tilbúinn að skoða það að hugsanlega verði tilgreind einhver lágmarksþátttaka varðandi þjóðaratkvæði. Ég tel hins vegar að það gangi engan veginn, ef við viljum horfa til þess að breytingar verði ávallt staðfestar með þjóðaratkvæði, að minni hluti þings, lítill eða stór, geti komið í veg fyrir að þjóðin fái að segja álit sitt á málinu. Mér finnst skipta meira máli að endanlegur úrskurður sé hjá þjóðinni, það er sú niðurstaða sem á að ráða að lokum. Það er þá frekar spurning hvort sett sé ákvæði um að einhver lágmarksþátttaka sé í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu svo að hún hafi fullt gildi.

Virðulegi forseti. Það eru söguleg tímamót í starfi þjóðar og þings að við skulum vera að ræða þetta mál. Það mun reyna á vilja, þrek og þor þingsins. Þjóðin vill breytingar og kallar eftir þeim. Þjóðin mun einnig hafa lokaorð í þessum efnum. Það er ekki þingsins að hafa vit fyrir þjóðinni né heldur að koma í veg fyrir að þjóðin fái að taka endanlega ákvörðun í þessu máli. Það er heldur ekki þingsins að halda þessum málum frá þjóðinni. Skýr vilji þjóðarinnar liggur fyrir í mörgum lykilmálum þeirra breytinga sem hér eru til umfjöllunar. Eðlilega eru skoðanir skiptar um einstakar útfærslur en að mínu mati er víða verið að gera úlfalda úr mýflugu.

Stjórnarskrármálið hefur fengið vandaða og ítarlega umfjöllun. Fleiri hafa komið að umræðunni, bæði utan og innan þings, en nokkru sinni áður í stjórnarskrárumræðu hérlendis. Þjóðin hefur jafnframt verið virkur aðili í umræðu og stefnumótun og hún mun fylgjast vel með því hvernig málinu vindur fram hér á næstu dögum og vikum. Alþingi hefur það nú í hendi sér að fara að vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar. Gerum okkur grein fyrir því, hv. þingmenn, að nú hefur Alþingi tækifæri til að ná fram langþráðum breytingum á stjórnarskránni. Það er alls óvíst að sambærilegt tækifæri gefist aftur í bráð.