141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:27]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki mikla þingreynslu eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, en ég þykist vita að það sé afar sjaldgæft að nokkurt mál sé tekið til umfjöllunar með þeim hætti sem þetta mál hefur verið tekið til umfjöllunar að því leytinu til að hver einasta nefnd hefur skilað inn umfangsmikilli umsögn. Ég er alveg sammála því sem hv. þingmaður segir, það eru ábyggilega fáir hér inni sem hafa heildarsýn yfir öll málin. Maður hefur komið að því á þeim sviðum þar sem maður hefur sæmilega þekkingu og sú þekking byggir þá kannski fyrst og fremst á störfum manns í fastanefndum á þinginu.

Þess vegna er líka svo mikilvægt að málið sé til umfjöllunar í þingsalnum samhliða því sem það er í umfjöllun nefndarinnar vegna þess að við bætum hvert annað upp. Það er svo mikil þekking sem býr í þessu þingi öllu og það er nauðsynlegt fyrir okkur að leggja hana saman í púkkið og reyna að fá bestu mögulegu niðurstöðuna.