141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá ábendingu að búið sé að gera forseta Alþingis aftur virkan í löggjafarstarfi, en hv. þingmaður segir að þetta sé bara formbreyting og að það sé undirstrikað. Þá er það spurningin: Hvernig lítur dómari á að yfirleitt hafi verið gerð breyting á stjórnarskránni? Hvernig lítur dómari á það þegar einhver segir: Já, en þetta stóð ekki áður, nú er það komið? Svo flytur til dæmis einhver þingmaður frumvarp um að fólk sem er á götunni eigi rétt á því að nota ónotaðar íbúðir. Þá mun hann halda því fram að gerð hafi verið sú breyting að nú fylgi skyldur eignarrétti. Af því að sumt fólk hefur ekki húsnæði er húsnæðiseiganda skylt að eftirláta húsnæðið — með lögum — leigja það út eða eitthvað slíkt vegna þess að stjórnarskránni hafi verið breytt. Þetta er ekki formbreyting. Það er verið að setja nýtt ákvæði í stjórnarskrána sem ekki var þar áður og það hlýtur að hafa einhvern tilgang. Það getur ekki verið að menn séu að gera það að gamni sínu eða bara út í bláinn.

Varðandi það að eignarréttur sé mjög virtur á Íslandi er það bara alls ekki rétt. Ég nefndi nokkur dæmi, m.a. verðbólgu, ég nefndi reyndar ekki hrunið á hlutabréfum þar sem 50 þús. manns töpuðu 80 milljörðum. Það virðist öllum vera sama, eignarrétturinn hvarf bara þar. Ég nefndi líka gífurlega skattlagningu, auðlegðarskatt og annað slíkt, á eignum og verðbólgu sem étur upp sparifé. Lífeyrissjóðirnir sem menn eru skyldaðir til að borga í töpuðu miklu fé og þessu þurfa menn að hlíta þó að það standi í stjórnarskránni að eignarrétturinn sé friðhelgur.