141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil einnig lýsa ánægju minni með að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson skyldi vekja athygli hér á verðtryggingunni og því stóra og brýna máli í samfélaginu. Það vekur að sjálfsögðu upp spurningar þegar við horfum á dagskrá þingsins að hér eru tvö þingmál á dagskrá að lokinni sérstakri umræðu, annars vegar stjórn fiskveiða og hins vegar stjórnarskipunarlög. Það bólar ekkert á þeim tillögum sem hafa verið settar fram í þinginu um hvernig leysa megi vanda heimilanna og hvernig ná megi tökum á verðbólgunni. Þau mál fást einfaldlega ekki afgreidd hjá þessum stjórnarmeirihluta.

Þegar menn hótuðu hér vantrausti í gær hefði það átt að vera vegna þess að það vantaði lausnir fyrir heimilin, vantaði lausnir til að ná tökum á verðbólgunni. En, nei, stjórnarskráin virðist hafa rekið þessa stjórnarandstæðinga til að setja vantrauststillöguna hér á dagskrá. Það er það sem þurfti að urra til að á dagskrá kæmi þetta mál sem er hvergi nærri nógu vel unnið til að klára það.

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmenn Eygló Harðardóttir og Vigdís Hauksdóttir hafa bent á hafa framsóknarmenn lengi fjallað um verðtrygginguna. Við erum nú með mál sem var lagt fram í byrjun september, er tölusett nr. 9 þannig að það kom mjög snemma fram, en hefur hvorki fengið umræðu né afgreiðslu úr efnahags- og viðskiptanefnd.

Við erum líka með annað mál sem er nr. 4. Það var lagt fram og mælt fyrir á undan þessu máli og lýtur að því að nota skattkerfið vegna afborgana af fasteignalánum til að hvetja fólk til að greiða hraðar niður fasteignalán sín, það sem getur. Af hverju eru þessi mál ekki afgreidd? Af hverju eru þessi mál ekki í forgangi?

Málefni heimilanna og efnahagsmálin skipta mestu þessa dagana, frú forseti, og okkur liggur mest á að klára þau, setja þau í farveg. Við getum ekki horft til framtíðar ef við látum heimilin og atvinnulífið alltaf reka á reiðanum. Hluti af því er að ráðast á verðbólguna, á verðtrygginguna, og það er nákvæmlega það sem kemur fram í öllum okkar tillögum.