141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:22]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Varðandi það frumvarp sem fyrir liggur er mér allnokkuð hugleikið innihald þess, sem snertir kannski að stórum hluta þau verkefni sem ég hef fengist við á þingi frá því að ég tók hér sæti og snúa að fjárlagagerð hvers árs. Þess vegna var það það fyrsta sem ég las í frumvarpinu fylgiskjal II sem er umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, fjárlagaskrifstofu þess, um frumvarpið. Umsögnin er alllöng og ítarleg. Það vekur mann til allnokkurrar umhugsunar hvernig sú umsögn hljóðar og ég ætla að vitna aðeins til hennar, með leyfi forseta:

„Fyrir liggur að erfið staða blasir við í ríkisfjármálunum sem kallar á að leitað verði allra leiða til að afla ríkissjóði aukinna tekna og að engin slík tækifæri verði látin fara forgörðum til að draga úr og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Mörkun nýrra ríkistekna og stýring þeirra í fyrir fram tiltekna útgjaldafarvegi styður ekki vel við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum.“

Þetta er í mínum huga grafalvarleg setning og lýsir í rauninni ágætlega þeim raunveruleika sem við er að glíma, þ.e. mjög alvarleg staða er í ríkisfjármálum og við verðum að leita allra þeirra leiða sem við höfum til að afla ríkissjóði tekna til að fara að greiða niður skuldir. Það er hins vegar alvarlegt þegar fullyrðing kemur frá því ráðuneyti sem annast um og hefur yfirumsjón með fjárlögum íslenska ríkisins og fjárreiðum þess að það frumvarp sem fyrir liggur samræmist ekki og samrýmist í rauninni ekki þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Ég hef af því verulegar áhyggjur að frumvarp sem ber þann dóm sé lagt fram á þingi án þess að fyrir liggi sameiginleg afstaða þeirra tveggja ráðuneyta sem þetta mál snertir til þeirra grafalvarlegu tíðinda sem birtast í þessu mati á fjárhagslegum áhrifum frumvarpsins.

Þegar maður fer að rýna aðeins betur í þetta þá tiltekur fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins það atriði í fyrsta lagi að hún metur áhrif frumvarpsins þannig að leiguverð muni væntanlega lækka. Þeir hafa áhyggjur af þróun afurðaverðs á mörkuðum, meðal annars vegna aukins framboðs en ekki síður vegna verðfalls sem er að verða á erlendum afurðum okkar víða um Evrópu. En þó telja þeir gróflega áætlað að ætla megi, eða eins og það er orðað, „að tekjur ríkissjóðs af leigu aflamarks úr flokki 2 geti orðið 2,3–2,7 milljarðar“. Það er undirstrikað að samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins á að færa þær tekjur á tekjuhlið fjárlaga og síðan er gert ráð fyrir að þeim tekjum sé ráðstafað með ýmsum hætti. Þetta skiptist annars vegar á milli ríkissjóðs upp á 40%, sveitarfélaga upp á 40% og svo renni 20% af gjaldinu í markaðs- og þróunarsjóð, þannig að þessi framlög yrðu þá að fara á útgjaldahlið fjárlaganna líka.

Þetta er þó því marki brennt að engin ákvæði eru um það í frumvarpinu hvernig þeim sjóði skuli háttað, hvernig á að stofnsetja hann, hvernig á að verja fé úr honum. Eingöngu er gert ráð fyrir að ráðherra ráðstafi úr honum, en engu að síður er mjög skýrt undirstrikað að reikningshaldlegt fyrirkomulag á þessum fjármagnstilfærslum þurfi sérstakrar skoðunar við. Það fylgir engin slík skoðun hér og mér vitanlega hefur hún ekki átt sér stað. Þetta gengur einnig í rauninni þvert á þá stefnumörkun sem ráðuneytið hefur lagt upp með varðandi mörkun ríkistekna. Ráðuneytið bendir á að það fyrirkomulag sem hér er verið að leggja til hafi reynst óheppilegt og samræmist illa nútímalegri rammafjárlagagerð. Ég minni hv. þingmenn einnig á það að fjárlaganefnd hefur staðið saman að því og gagnrýnt harðlega ráðstafanir sem leiða til mörkunar ríkistekna, í nefndarálitum og umræðum, ekki bara núna fyrir þessa fjárlagagerð heldur fyrir mörg, mörg ár hér að baki.

Niðurstaðan í mínum huga samræmist í rauninni ágætlega því mati sem fjármálaráðuneytið leggur á þetta, að til að styrkja fjárstjórnarvald Alþingis og reyna að stemma stigu við sjálfvirku útstreymi fjármuna úr ríkissjóði þá gangi frumvarpið og þau áform um útdeilingu á þessu gjaldi, sem stafar af leigutekjum úr flokki 2, þvert gegn öllum þeim tilraunum sem uppi eru til að stemma stigu við frjálsu flæði fjármagns úr ríkissjóði. Þetta gengur gegn mörkuðum áherslum líka um útgjaldastýringu ríkissjóðs.

Ég ætla að láta þetta duga um þann dóm sem yfir frumvarpinu er felldur af burðarráðuneyti varðandi það sem snertir tekjuhluta þessa verks. Það ber að undirstrika að ráðuneytið segir að ekki séu forsendur til að áætla í hvaða mæli þessum tekjum yrði varið en það sé alveg ljóst að frumvarpið muni ekki með neinum hætti bæta afkomu ríkissjóðs með beinum hætti. Að lokum vil ég vitna orðrétt, með leyfi forseta, til niðurlagsins í áliti fjármálaráðuneytisins sem hljóðar svo:

„Að öðru leyti eru forsendur á þessu stigi of óvissar til að unnt sé að segja fyrir með nokkurri vissu um fjárhagsáhrif af lögfestingu þessara breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu fyrir ríkissjóð.“

Þetta er í mínum huga mjög alvarlegur dómur. Menn hljóta að skoða það vendilega í meðförum málsins þegar nefndin tekur það til umfjöllunar og alveg ljóst að þarna er um að ræða ákveðið grundvallaratriði sem menn verða á allan hátt að nálgast af fyllstu nærgætni og alvöru og gera það með þeim hætti að sómi sé að.

Ég vil einnig gera að umtalsefni atriði sem mikið hefur borið á í umræðum um þetta mál, þ.e. byggðamálin. Það kemur raunar fram í 1. gr. frumvarpsins þar sem markmið lagafrumvarpsins er sett fram í allnokkrum stafliðum. Í staflið c í 1. gr. stendur: „að treysta atvinnu og byggð í landinu.“ Í staflið e í 1. gr. er sett fram markmið um: „að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni …“

Í umræðunni sem hér hefur átt sér stað hefur borið mikið á því að fella dóm yfir því fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum búið við. Hefur meðal annars verið fullyrt að það kerfi hafi leitt til byggðaröskunar. Ég er ekki alls kostar sammála því að kerfið sjálft hafi leitt til byggðaröskunar. Það sem leiðir fyrst og fremst til þeirrar byggðaröskunar í landinu var sú erfiða og raunar þungbæra staðreynd að Íslendingar og íslensk þjóð neyddist til að hætta að veiða frjálst úr fiskstofnunum við landið. Því fylgdi að í stað þess að við gætum veitt óheft varð að takmarka þann afla sem mátti taka upp úr sjávarauðlindinni á ári hverju og veiðiheimildir voru skornar umtalsvert niður svo nam tugum þúsunda tonna og af því leiddi gjörbreyting á því atvinnumynstri sem við höfðum haft í okkar ágæta landi um alllanga tíð. Þá var kerfið ekki til þegar Íslendingar tóku þá ákvörðun að takmarka sóknina í auðlindina. Svo var búið til kerfi til að reyna að stýra sókninni úr þeirri takmörkuðu auðlind sem fiskveiðiauðlindin vissulega er. Svo undarlega vill til að aðrar þjóðir horfa til þess kerfis og ætla sér og vilja taka upp bestu hluta þess, vissulega, og það segir manni að allt í því sé ekki alónýtt eins og stundum er gefið til kynna.

Hins vegar háttar þannig til að mjög auðvelt er að efna til ófriðar um þennan málaflokk einfaldlega vegna þess hversu ríkt það er í þjóðarsálinni að gera verðmæti úr fiski, sjávarfangi. En ég er þó þeirrar skoðunar alfarið að heill og hamingja, t.d. Raufarhafnar sem er í mínu kjördæmi, þeirrar byggðar sem þar þrífst ráðist ekki af því hvort þar er úr 100 tonnum af þorski meira eða minna að spila. Ég er þeirrar skoðunar að aðrir þættir í íslensku þjóðfélagi vegi mun þyngra þar en 100 tonn af þorski. Og er ég þá að tala um greið samskipti á sviði samskiptatækni, netinu, samgöngur á landi, sjó og lofti, menntun og heilbrigðisþjónustu. Það eru miklu frekar þeir þættir sem eru afdrifaríkari í mínum huga varðandi byggðamálin en nokkurn tíma 100 eða 50 tonn af þorski. En það hentar ágætlega þegar illa árar að draga þá þætti upp og varpa upp á uppboð einhverjum tilteknum tonnafjölda af þorski, í honum felast vissulega ákveðin verðmæti sem framsækið fólk hefur tækifæri til að skapa sér atvinnu við og búa til úr því verðmæti sjálfum sér og öðrum til gagns.

Ég vil enn fremur nefna að sérfræðingar vara sérstaklega við því sem lýtur að 8. gr. frumvarpsins og snertir úthlutun samkvæmt aflahlutdeildum þar sem kveðið er á um að „verði ákveðinn heildarafli þorsks fyrir fiskveiðiár, sbr. 1. mgr., sem nemur meira en 240.000 lestum skal 50% þess aflamarks sem umfram er ráðstafað til flokks 1 og 50% til flokks 2“.

Mat þeirra sem við höfum reitt okkur á í umsögnum um þetta er á þá lund að ekki er boðlegt að þingmenn komi hingað fram og lýsi því yfir að þetta sé vel til þess fallið að styrkja byggðina í landinu og styrkja þau markmið sem í frumvarpið eru sett um aukna nýliðun í greininni og árangursríkar byggðaaðgerðir. Þvert á móti halda sérfróðir aðilar því fram að þetta ákvæði geti með öðrum orðum gengið gegn þeim ágætu markmiðum í frumvarpinu og þeir sem halda öðru fram verða að færa betri rök fyrir máli sínu en mér hefur þótt koma fram í þeirri umræðu í það minnsta sem hér hefur átt sér stað í dag.

Í annan stað vil ég nefna það sem einnig hefur borið á í umræðunni og varðar þetta svokallaða kvótaþing. Skiptar skoðanir eru um það en ég vil segja það sem mína skoðun að eins og það liggur fyrir í frumvarpinu þá er þetta gersamlega óútfært. Það er alveg ljóst að þar á að vera um pólitíska stýringu að ræða af hendi ráðherra eins og það er skilgreint í 17. gr. En þeir sérfræðingar sem ég vitna til varðandi kvótaþingið taka tiltölulega vel undir það að gefnum ákveðnum forsendum. Þeir telja að það geti aukið tekjur ríkissjóðs, það geti skapað aukinn sveigjanleika veiða innan aflamarkskerfisins o.s.frv. En þeir eru með einn stóran fyrirvara við þá nálgun sem er að allt er þetta háð því að kvótaþingið starfi með eðlilegum hætti án pólitískra afskipta. Það er eðlilegt að maður beri allnokkurn ugg í brjósti gagnvart þeirri útfærslu, sem er tiltölulega lítil í frumvarpinu, í ljósi þeirra orða að hinn pólitíski vængur og hin pólitíska vigt sem sett er í þessa umræðu er þess eðlis. Þar sem ekki liggur fyrir nein nákvæm útfærsla á því hvernig þetta á að verða ber maður eðlilega nokkurn ugg í brjósti gagnvart þeim hugmyndum sem þarna eru uppi.