141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í gær fengum við enn á ný að heyra gjammið í varðhundum verðtryggingar og skuldafjötra. Um hver mánaðamót sitja íslenskar fjölskyldur við eldhúsborðið og velta fyrir sér hvaða reikninga eigi að borga, hvernig borga eigi bæði stökkbreytt, verðtryggð húsnæðislán og mat fyrir fjölskylduna. Þetta staðfestir nýútkomin skýrsla ASÍ, að staða hjóna og sambýlisfólks með börn hefur versnað mikið á því tímabili sem skýrslan tekur til.

Á flokksþingi framsóknarmanna lofaði formaður Framsóknarflokksins að eitt meginverkefni framsóknarmanna á næsta kjörtímabili yrði að leggja fram raunhæfar tillögur um hvernig leysa megi eða létta mjög vanda þeirra sem eru í fjötrum skulda og vonleysis. Við vitum, og fengum það svo sannarlega staðfest í gær, að það verður ekki auðvelt. Talsmenn skuldafjötra og verðtryggingar munu halda áfram áróðursstríði sínu til að halda heimilunum í skuldafangelsi. Þeir munu klifa á því að við getum engu breytt og ekkert gert nema kannski troðið upp í okkur evrusnuðinu sjálfu. Þessu höfnum við framsóknarmenn algerlega.

Við höfnum því aðgerðaleysi sem hefur einkennt þetta kjörtímabil. Það er löngu kominn tími til að rjúfa umsátrið um heimilin og tryggja þeim réttlæti. Það er hins vegar staðreynd að til þess þarf kjark og þor, það þarf framsókn fyrir Ísland. Það er það sem við ætlum að gera. (Gripið fram í.) Við höfum lagt fram fjölmargar tillögur hér á þingi. Ég vona svo sannarlega að stjórnarliðar í efnahags- og viðskiptanefnd hafi alla vega tekið sig til og lesið þau frumvörp og þær tillögur sem við höfum lagt þar fram.