141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

fundur í atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða.

[16:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hefur það fram yfir mig að hafa setið þessa fundi en ég get ekki orða bundist yfir þessu tuði í hv. þingmönnum. Eftir tíu ára setu mína í þinginu skil ég ekki við hvað er verið að gera athugasemdir.

Það er ekkert nema ánægjulegt ef forusta nefndar hefur brugðist hratt og vel við og kallað til aukafundar til að koma máli sem fyrst út til umsagnaraðila. Mér skilst að formaður nefndarinnar hafi gert umsagnaraðilum sem áður hafa veitt umsögn um keimlík frumvörp aðvart um það í síðustu viku að þeir mættu vænta þess og þeir mundu hafa tiltölulega skamman tíma miðað við umfang málsins, tíu daga. Þeir hafa áður fjallað ítrekað um þetta málefni og eru margir í færum til þess að ræða efni þess með tiltölulega skömmum fyrirvara. Fyrir því eru mýmörg fordæmi í flestum, ef ekki öllum, nefndum þingsins að umsagnaraðilar sem eru tilbúnir að koma til viðræðna við nefndir áður en að umsagnarfrestur er liðinn eru auðvitað velkomnir og auðvitað (Forseti hringir.) er öllum sérfræðingum og hvaða manni sem er á Íslandi velkomið að senda þinginu hver þau erindi sem varða þingmál, ábendingar og/eða miðla af sérfræðiþekkingu sinni (Forseti hringir.) eins og hver vill. Auðvitað geta allir nefndarmenn bætt við aðilum sem eiga að veita umsagnir. (Forseti hringir.) Ég skil bara ekki hvers vegna hér er hver dagurinn á fætur öðrum tekinn í að tuða yfir formi eða dagskrá fundarins í stað þess að ræða efni þeirra mála (Forseti hringir.) sem fyrir fundinum liggja.