141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:13]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið. Ég skil tillögugreinina frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á þann veg að frumforsendan sé sú að landið sé eitt kjördæmi, en heimilt sé að skipta því upp. Ég sé að hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hristir höfuðið yfir því og er mér greinilega ekki sammála. Ég skil þetta svona. Ég vænti þess að það sé þá hægt að orða þetta einhvern veginn skýrar.

Það er rétt að listaðar eru upp ýmsar leiðir við kosningar. Ég get ekki með neinum hætti gert mér grein fyrir því hvaða þýðingu þetta mun hafa varðandi fulltrúafjölda jafnvel við núverandi kjördæmaskipan. En ég mundi gjarnan vilja heyra aðeins nánar frá hv. formanni um það efni, hvernig maður getur gert sér betri grein fyrir því. Mér þætti líka gott ef hún gæti sagt mér hvar ég gæti fengið upplýsingar um hið svokallaða hollenska kosningakerfi sem talað er um.