141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:26]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í þessu efni varðandi 39. gr. skilur sennilega fátt annað á milli okkar en það hversu harður Evrópusinni hv. þm. Jón Bjarnason er. Að öðru leyti held ég að við séum nokkuð sammála um innihaldið í þessari grein. En við deilum alveg sömu skoðun í þessu efni, þ.e. að það sé sjálfsögð krafa, og ég tel það raunar sjálfsagða skyldu, Alþingis Íslendinga að hafa skoðun á því hvernig kjördæmaskipan landsins er. Þeirri skoðun minni er ekki mætt í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og þar af leiðandi lýsi ég mig algjörlega andvígan henni. Þegar þess er gætt að bráðabirgðaákvæðið, sem er í frumvarpinu sem gerð er tillaga um, er þannig að kjördæmaskipanina sé hægt að ákveða með einföldum meiri hluta atkvæða á þinginu þá er þetta enn ógnvænlegra en textinn hljóðar hér.