141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[13:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu eigum við rétt á því að veiða a.m.k. það magn af makríl sem við höfum veitt á undanförnum árum. Og að sjálfsögðu er þetta líka áminning um mikilvægi þess að halda yfirráðum yfir okkar eigin fiskimiðum og geta tekið ákvarðanir á grundvelli alþjóðalaga sem tryggt hafa hagsmuni Íslands að svo miklu leyti sem hagvöxtur hefur náðst hér á undanförnum árum. Það er ekki hægt annað, virðulegur forseti, en að setja það í samhengi við málflutning ríkisstjórnarinnar um kostina af aðild að ESB, vegna þess að þarna sjáum við svo augljóslega að ef við værum aðilar að Evrópusambandinu hefðum við ekki fengið að veiða nema kannski 3%, kannski 1%, af þeim makríl sem veiddur var. Það hefði skaðað íslenskan efnahag verulega og gert okkur mun erfiðara fyrir að halda sjó eftir efnahagshrunið. Þrátt fyrir að fjárfesting hafi verið hér í sögulegu lágmarki og menn hafi breytt skattalöggjöfinni 200 sinnum og skapað alls konar óvissu hefur þó þessi makrílveiði og sú staðreynd að við skulum enn þá ráða okkar málum og nýtingu okkar á eigin auðlindum haldið okkur að vissu leyti á floti. Það er mjög mikilvæg áminning um hættuna sem fylgir því að afsala sér réttinum til að nýta eigin auðlindir.