141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:28]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að ég held að margt sé til í þeirri lýsingu sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gaf um ástæður þess að hægt gangi að semja við ESB eða öllu heldur að aðlaga íslenskt regluverk að hinu evrópska, meðal annars í sjávarútvegsmálum. Þess vegna held ég að það hafi ekki verið nein sérstök ákvörðun hjá ríkisstjórninni að horfast í augu við það og var reynt að gera meira úr þeirri ákvörðun en efni stóðu til. Ég held að hún hafi fyrst og síðast verið til heimabrúks innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. En látum það vera, það er allt skiljanlegt.

Það sem ég vildi spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson um snýr að yfirlýsingu sem hæstv. þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon gaf þegar við greiddum atkvæði um hvort sækja ætti um aðild að ESB eða ekki. Í þeirri atkvæðagreiðslu sagði hæstv. ráðherra, með leyfi virðulegs forseta: „Það tekur einnig til þess að áskilja okkur“ — það eru Vinstri grænir — „rétt til þess að slíta samningaviðræðum séu þær ekki að skila fullnægjandi árangri á hvaða stigi málsins sem er …“

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé enn sammála þessum orðum, að þessi réttur sé til staðar og að honum eigi að beita. Ég vil einnig spyrja hvort skilja megi það þannig að ef samningaferlið verður látið ganga til enda þannig að hér komi samningur meti menn það svo, í það minnsta á þeim bænum, hjá Vinstri grænum, að náðst hafi fullnægjandi árangur í samningnum. Hvað er átt við með því? Ég hef skilið það þannig og það kom svo sem fram í fleiri ræðum í umræðunni á þessum tíma, það kom fram hjá hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni og líka hæstv. þáverandi ráðherra Jóni Bjarnasyni, að byrja ætti á samningum um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál og ef ekki næðust þar fullnægjandi (Forseti hringir.) samningar væri viðræðunum bara sjálfhætt.