141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Full ástæða er til að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá skýrslu sem hér er lögð fram og kannski ekki síst fyrir orðfærið í formála hans og litríka íslenska tungu sem þar er að finna og einnig þá áherslu sem ráðherra leggur á málefni norðurslóða og þau tækifæri sem við Íslendingar eigum í þróuninni þar. Engum blöðum er um það að fletta að þar eru gríðarlega mikil tækifæri að opnast, í olíuvinnslunni, sem við Íslendingar þekkjum nú orðið lítið eitt til, í námuvinnslu og í talsverðum tækifærum í flutningum. En á norðurslóðum eru ekki aðeins tækifæri, þar eru líka ýmsar ógnir. Það er mikilvægt að við vinnum áfram með þeim ríkjum sem aðild eiga að Norðurskautsráðinu — ráðherrann hefur unnið ötullega að því og er ástæða til að þakka það — að því meðal annars að huga að hættum sem geta steðjað að í höfunum í kringum okkur með aukinni umferð, auknum flutningi á efnum sem spillt geta umhverfinu og skapað okkur ýmiss konar hættu, hvort sem það er tengt vinnslu og flutningi á úraníum fyrir austan okkur, flutningi til og frá olíuborpöllum eða farmflutningum austur- eða vesturleiðina norður um eða beint yfir norðurskautið. Þar hefur sem betur fer náðst samningur á milli ríkjanna um verkaskiptingu þegar kemur að björgun og mengunarslysum á þessum gríðarlega stóru hafsvæðum en enn vantar mikið upp á að nægilega öflugur viðbúnaður sé þar miðað við þær miklu breytingar, miklu umferð og miklu hættur sem geta stafað af því og það fyrir fiskveiðiþjóð eins og okkur sem byggir afkomu sína á því að ástandið í höfunum í kringum okkur sé heilbrigt og gott. Það er gríðarlega mikið hagsmunamál, eitt mengunarslys í höfunum í kringum okkur er einhver sú mesta ógn sem að öryggi landsins getur stafað.

Á norðurskautinu eru dæmi um bæði ógnanir og tækifæri sem liggja í framtíðinni á næstu áratugum og það er sömuleiðis sá mikli vöxtur sem er í löndum á borð við Kína og Indland á hinum nýju mörkuðum þar sem hagvöxtur er hvað mestur í heiminum og því ástæða til að þakka fyrir þá vinnu sem unnin hefur verið við gerð fríverslunarsamninga í gegnum EFTA við Indland og einnig þá vinnu sem lögð hefur verið í fríverslunarsamning við Kína. Þar í eru líkt og á norðurslóðum gríðarlega mikil viðskiptatækifæri sem geta opnast fyrir íslenska þjóð en ástæða er til að undirstrika það í þessari umræðu að það eru ekki aðeins tækifæri sem í því felast. Þar eru líkt og í flestu öðru líka verulegar ógnanir á ferð og mikilvægt er að ríkrar varúðar sé gætt í samningum fyrir lítið ríki eins og Ísland, 320 þús. manns, við efnahagslegt stórveldi eins og Kína með 1,2 milljarða manna og ástæða til að þakka að í þeim viðræðum hefur verið lögð áhersla á varúðarsjónarmið, meðal annars þegar kemur að flutningi vinnuafls á milli svæðanna. Augljósar hættur felast í því ef þær girðingar yrðu almennt opnaðar og rík ástæða til að gæta að slíkum og öðrum varúðarsjónarmiðum í þeirri samningagerð allri.

Í núinu er makrílmálið hins vegar hvað brýnasta hagsmunamálið fyrir okkur til skemmri tíma í utanríkismálum og er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að skammtímasjónarmið viðsemjenda okkar í því og það hversu allt of langt þeir hafa gengið í veiðum sínum á stofninum eftir að hann hefur breytt göngumynstri sínu geti leitt til ofveiði sem bitni á stofninum og þar af leiðandi á afkomu allra sem byggja nú á greininni og meðal annars geti leitt af því áföll fyrir okkur hér á Íslandi. Það er þess vegna ákaflega brýnt fyrir okkar efnahagslegu hagsmuni — við höfum sem betur fer notið góðs af göngu makríls hingað — að ná samningum um skiptingu á þeim stofni sem allra fyrst þó að auðvitað verði að horfa á það mál með raunsæi og kannski ekki ástæða til að ætla að hreyfa mikið samningum í þeim efnum fyrr en að loknum kosningum í grannríki okkar Noregi nú á hausti komanda. En þeim mun mikilvægara er að þegar skriður kemst á þessar viðræður takist að ljúka þeim fljótt og vel.

Þessi deila hefur líka staðið í vegi fyrir stærsta utanríkismáli okkar Íslendinga, þ.e. aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, og er meginástæða þess að ekki hefur mátt ljúka þeim á þessu kjörtímabili eins og ýmsir höfðu bundið vonir við. Ekki var hægt að sjá það fyrir þegar þær viðræður hófust að þessar deilur mundu rísa og engin ástæða til að horfast ekki í augu við það að hér fara hagsmunir ekki saman. Íslendingar eiga það mikla efnahagslega hagsmuni undir makrílmálinu að full ástæða er til að taka þann tíma sem þarf til að leiða þær deilur til lykta áður en lengra er haldið í viðræðum í sjávarútvegsmálum enda fullkomlega óraunhæft að fara áfram í viðræðum um þær fyrr en lyktir eru fengnar í þessa miklu hagsmunadeilu aðila.

Það breytir því ekki að það er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenska þjóðarhagsmuni að ljúka aðildarviðræðunum og það er ljóst að það er ríkur vilji almennings á Íslandi til að þeim viðræðum verði lokið þannig að í þessu mikla deilumáli megi leggja fullbúinn samning í dóm þjóðarinnar og fá úr því skorið hvort vilji er til að ganga í sambandið eður ei. Engum blöðum er um það að fletta að dregið hefur úr stuðningi við inngöngu í bandalagið sjálft frá því sem var í hruninu. Það má eflaust rekja bæði til makríldeilunnar en einnig til ákveðinna erfiðleika sem uppi voru á evrusvæðinu vegna óábyrgra ríkisfjármála í einstökum Evrópuríkjum sem eiga sér langa sögu um efnahagslegan óstöðugleika og var sá vandi að ósekju tengdur sérstaklega við evruna. Það er hins vegar brýnna en orð fá lýst að þessum viðræðum megi að makríldeilunni leystri miða vel áfram og við fá lyktir í hana. Hér eigum við stöðu okkar í heiminum undir, sem ástæða er til að hafa nokkur orð um á eftir, en íslensk heimili eiga gríðarlega hagsmuni undir.

Íslenskir neytendur og almenningur hefur notið margvíslegra réttarbóta í neytendarétti, í upplýsingalögum, í stjórnsýslu, samkeppnisrétti og öðrum slíkum þáttum sem hafa komið hingað send með faxtækinu frá Brussel á undanförnum árum en enn skortir á efnahagslegan stöðugleika og vaxtaumhverfi eins og gerist með siðmenntuðum þjóðum með skelfilegum tilkostnaði fyrir heimilin í landinu. Þau búa við hróplegt okur í þeim efnum öllum sem og í öðrum samanburði við öll Evrópuríki, algerlega óboðlegt nýjum kynslóðum að reisa hér bæði heimili og fyrirtæki í framtíðinni og gríðarlega brýnt að takast megi að brjótast út úr þeirri herkví sem efnahagsleg einangrun landsins er enda engin þjóð frjáls sem býr við gjaldeyrishöft eins og við Íslendingar gerum með þeim alvarlegu afleiðingum sem það hefur fyrir atvinnulíf, hagvöxt og lífskjör í landinu til lengri tíma.

Um leið er staða okkar í Evrópska efnahagssvæðinu æ meira áhyggjuefni. Það var kallað tveggja stoða samstarf hér áðan af hv. formanni utanríkismálanefndar en auðvitað er ekki um að ræða tvær stoðir. Það er annars vegar ein stoð og hins vegar einn dvergur sem hefur sífellt farið minnkandi eftir því sem liðið hefur á samstarfið. Það er alveg ljóst að við munum í framtíðinni ekki aðeins þurfa að taka við löggjöf í gegnum faxtæki frá Brussel eins og forsætisráðherra Breta hefur lýst því heldur er sú þróun nú að hefjast að ef við ætlum ekki að verða aðilar að sambandinu þá þurfum við í ríkum mæli (Forseti hringir.) að fara að fela stofnunum Evrópusambandsins framkvæmd laga og reglna á Íslandi og valdheimildir, meðal annars til að loka fjármálakerfi okkar. (Forseti hringir.) Við slíkt getur engin sjálfstæð þjóð búið lengi.