141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra er að segja að þessar breytingar hafa átt sér stað innan Evrópusambandsins og vægi þingsins hefur verið að aukast á kostnað annarra stofnana innan Evrópusambandsins. Það breytir ekki því að eins og við þekkjum öll eiga að minnst kosti hin stærri mál, sem verið er að lögfesta á Evrópuþinginu, sér gríðarlega langan aðdraganda. Ef við tökum bara dæmi um fiskveiðimálin þá eiga þau sér langan aðdraganda með hvítbókum, grænbókum og öllu því sem við könnumst við. Við höfum líka kynnst því, í aðdraganda lagasetningar sem nú fer fram á Evrópuþinginu, að við getum haft þar ýmis áhrif. Það var einmitt það sem við vorum að benda á í þessari skýrslu að slíkum áhrifum getum við beitt með margvíslegum hætti. Við getum í fyrsta lagi reynt að hafa áhrif á undirbúning mála á frumstigi og mótun þeirra mála. Við getum haft þessi áhrif líka með beinum hætti í gegnum ýmis hagsmunasamtök, við þekkjum það nú úr okkar þjóðþingi að hagsmunasamtök koma mjög að málum. Þannig að ég held að menn eigi ekki að gefast upp fyrir þessu.

Það er nokkuð mikill munur á því sem við erum að tala um þegar við segjum hins vegar að við séum að færa til tiltekið vald, það viðurkenni ég sannarlega. Það var stór hluti, skulum við segja, af þeirri gagnrýni sem látin var í ljós á sínum tíma þegar við vorum að véla um EES-samninginn að við værum að færa vald frá okkur til erlendra aðila. Það vorum við auðvitað að gera. Við vorum að gera það með sama hætti og hæstv. ráðherra nefndi varðandi bæði ESA og EFTA-dómstólinn, ég kom reyndar inn á það áðan líka, en þar var auðvitað ólíku saman að jafna. Við erum aðilar að þessum stofnunum. Þarna er náttúrlega um að ræða örlítinn hluta af því valdi sem við erum að færa til þessara stofnana í samanburði við það vald sem við værum að færa til stofnana Evrópusambandsins ef við gerðumst þar fullgildir aðilar.