141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:03]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það var mjög merkileg atburðarás hérna í kringum áramótin þegar til stóð að leggja ESB-umsóknina til hliðar. Í utanríkismálanefnd hafði myndast meiri hluti fyrir því þar sem þingmenn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og hv. þingmaður Jón Bjarnason, sem þá átti sæti í nefndinni, ætluðu að leggja fram tillögu þess efnis að ESB-umsóknin yrði lögð til hliðar, allri vinnu yrði formlega hætt í aðdraganda kosninga og síðan ekki hafist handa aftur við aðildarferlið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það hefði verið í fullu samræmi við það sem margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar tala um, að það eigi ekki að vinna í ESB-umsókninni í aðdraganda kosninga. En það lá auðvitað ljóst fyrir að það var aldrei ætlun manna að gera þetta, þess vegna var málið lagt til hliðar svona, að nafninu til. Hæstv. utanríkisráðherra og hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa staðfest að ekkert hafi breyst í aðildarferlinu við að umsóknin hafi verið lögð til hliðar.

Það er allt á fullum snúningi og eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan stóð aldrei til að opna nýja kafla. Það hefði aldrei verið tími til að opna þá stóru kafla sem eru eftir í aðdraganda kosninganna og menn vissu það. Í rauninni var þetta því örvæntingarfullt samkomulag sem var gert til að reyna að bjarga því sem bjargað varð, greinilega af hálfu annars ríkisstjórnarflokksins, en þó án þess að einhverjar raunverulegar aðgerðir fylgdu í kjölfarið. Þess vegna er þetta ekkert annað en sýndarhlé á viðræðunum og maður veltir því fyrir sér hvaða trúverðugleiki verður á bak við nokkurn skapaðan hlut sem kemur frá mönnum eftir að þeir ganga fram þessum hætti.