141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:03]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var dapurlegt að heyra hvað hv. þingmaður er illa lesinn í þeim gögnum sem við erum að ræða. Ég ætla fyrst í andsvari mínu að víkja að þeim yfirlýsingum sem hann gaf um vinnubrögð í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þar sem við eigum bæði sæti. Af orðum hans mátti ráða að þar hefðu engir gestir komið fyrir eða mátt koma fyrir.

Ég ætla, með leyfi forseta, að vekja athygli á því að fyrir nefndina komu 16 gestir. Það voru allt fræðimenn að undanskildum tveimur, sem þó eru fræðimenn á sínu sviði en voru fulltrúar stjórnlagaráðs. Þetta eru prófessorar og sérfræðingar á þeim sviðum sem hefur verið kallað eftir hér að kæmu að málum. Þar má nefna Björgu Thorarensen, Aðalheiði Jóhannesdóttur, Sigurð Líndal og Hafstein Þór Hauksson. Þetta er það sem menn hafa verið að kalla eftir og það sem nefndin lagði sig fram um að gera, enda er álit nefndarinnar sem fylgir í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mjög ítarlegt og vel gert.

Með því er ég ekkert að kasta rýrð á vinnu annarra nefnda en ég tel að hv. þingmaður eigi ekki að tala svona. Ef með fullri sanngirni er lesið yfir það sem nefndin leggur til í breytingartillögum og ábendingum sem að flestu leyti ef ekki öllu hefur verið farið eftir, þá veit ég ekki hvað hv. þingmaður er að fabúlera. Ég verð að biðja þingmanninn um að gera betur grein fyrir því. Hann hefur þá ekki verið á fundum nefndarinnar, það er ekkert öðruvísi en það, það mætti kannski kanna. Það er eitthvað sem vantar þarna, frú forseti.