141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

síldardauði í Kolgrafafirði.

[16:29]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem hv. þm. Jón Bjarnason á frumkvæði að og láta þess getið að umhverfis- og samgöngunefnd tók að mínu frumkvæði málið til sérstakrar umfjöllunar í sömu viku og þetta gerðist. Þá fengum við til fundar við nefndina forstöðumenn viðeigandi stofnana, Vegagerðarinnar, Hafrannsóknastofnunar, Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins, ásamt sérfræðingnum og fleirum til að fara yfir stöðu málsins. Þá þegar komu fram þungar áhyggjur af ástandinu og vitnaðist að viðbragðsáætlun væri í gangi um næstu aðgerðir sem lúta að vöktun, mælingu og eftirliti með ástandinu. Það róaði mann nokkuð að finna að allar stofnanir virtust vera á tánum yfir þessum viðburði, enda fullt tilefni til, því að þarna hefur orðið mikið umhverfisslys.

Nú hafa menn velt fyrir sér orsökinni, hvort þverun fjarðarins eigi þarna hlut að máli. Það kann að vera, en þess má geta að síld hefur áður gengið á land í Kolgrafafirði. Það gerðist árið 1941 og árið 1963 gekk síld á land á Snæfellsnesi. Nokkur dæmi eru um viðlíka atburði þó að þetta sé í meira umfangi en áður hefur þekkst.

Það sem kom hins vegar á óvart þegar málið var rætt í umhverfisnefnd var hversu lítið lífríkið í Kolgrafafirði og hegðun síldarinnar þar hefur verið rannsakað. Það finnst mér áhyggju- og umhugsunarefni. Þó að nú verði settur aukinn kraftur í rannsóknir og vöktun er svolítið verið að byrgja brunninn eftir á.

Mér finnst augljóst að það þurfi að taka nýja stefnu hvað varðar áherslu á rannsóknir við undirbúning mannvirkjagerðar, eins og þverunar fjarða, og enn fremur auðvitað sem lið í áframhaldandi þekkingarsköpun varðandi lífríkið umhverfis okkur.

Svo er auðvitað sorglegt, m.a. þegar vísað er til þekkingarskorts, að (Forseti hringir.) smábátasjómenn óskuðu eftir viðbótarkvóta á síld fyrir utan Snæfellsnes vegna þess að þar var síldin farin að ganga óvænt, þeim var synjað um það, en nú liggur sú síld (Forseti hringir.) í töluverðum mæli og enn meira mæli (Forseti hringir.) dauð á fjarðarbotni.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að virða ræðutímann.)