141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

málefni Dróma.

[10:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er nú einu sinni svo að mál taka stundum lengri tíma en maður vonast til að þau geri. Frá því að við ræddum þetta mál síðast, eins og hv. þingmaður kom inn á, höfum við fundað með viðskiptavinum Dróma sem óskuðu eftir fundi með mér og hæstv. fjármálaráðherra og atvinnuvegaráðherra til að fara yfir mál Dróma og þá skýrslu sem lá fyrir frá FME. Niðurstaða FME varðandi þær ásakanir margar hverjar sem höfðu komið fram var sú að það væri til skýring á þeim og margar ættu ekki við rök að styðjast.

Engu að síður vil ég stuðla að því sem viðskiptavinir Dróma hafa lagt áherslu á, að þetta eignasafn verði flutt. Eignasafnið hefur verið í skoðun og mati, og það eru engir smápeningar sem þarf að leggja fram af hálfu ríkissjóðs ef það verður flutt og menn þurfa auðvitað að vega og meta hvernig best verður að því staðið.

Málinu var vísað til fjármálaráðherra sem hefur verið með það til skoðunar. Síðast þegar ég frétti af því heyrði ég að vænta væri niðurstöðu í því máli fljótlega. Meira get ég ekki sagt hv. þingmanni, en það hefur ekkert skort upp á vilja ríkisstjórnarinnar til að reyna að greiða fyrir þessu máli. Það eru vandamál í þessu, þetta er ekki einfalt, m.a. vegna þeirra fjármuna sem það kostar okkur að flytja eignasafnið og við verðum að geta tekið okkur þann tíma sem þarf til að fá niðurstöðu í málið, sem vonandi verður fljótlega. Ég veit að hv. þingmaður verður ekki ánægður með þetta svar en þetta er niðurstaðan og ég held að menn verði að virða það að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) er að vinna af kappi að málinu þó að það taki þennan tíma að fá niðurstöðu.