141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það verði að segjast eins og er að meiri hlutinn er þeirrar skoðunar, bæði á fyrra þingi og þessu, að þetta sé skýrasta og hnitmiðaðasta leiðin til að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði stofnunarinnar að RÚV fái útvarpsgjaldið allt til sín. Við höfum ekki fundið neinar aðrar leiðir og eins og ég nefndi áðan; fjárlaganefnd, sem telur að fyrirkomulagið eigi að vera óbreytt, nefnir engar aðrar leiðir til að virða þetta fjárhagslega sjálfstæði sem sú nefnd telur sömuleiðis að sé mikilvægt.

Varðandi stjórnina er það kannski að hluta til af sama meiði. Það breytta fyrirkomulag sem þar er lagt til frá því sem núna er er lagt til með einmitt þetta sama sjálfstæði, ekki fjárhagslegt sjálfstæði en sjálfstæði RÚV gagnvart beinni íhlutun hins pólitíska valds, að það verði ekki lengur þannig að Alþingi skipi beint fulltrúana í stjórnina en aðkoma Alþingis verði í gegnum það að skipa fulltrúa í þessa valnefnd og sú nefnd hafi það hlutverk að velja saman fulltrúa sem geti þá lagt í púkkið reynslu úr ólíkum áttum sem geti nýst Ríkisútvarpinu hvað varðar menningarleg, lýðræðisleg og samfélagsleg verkefni. Þarna er því verið að skapa þessa armslengdarfjarlægð sem menn telja mikilvægt að sé á milli pólitíska valdsins annars vegar og Ríkisútvarpsins hins vegar þannig að bæði þessi atriði, varðandi útvarpsgjaldið og auknar tekjur og stjórnina, eru af sama meiði, að reyna að auka sjálfstæði þessa fjölmiðils sem hefur þetta mikilvæga hlutverk.

Það er líka mikilvægt að vekja athygli á því að með þessu frumvarpi er verið að reyna að skapa betra jafnvægi á þessum markaði þannig að það eru ekki eingöngu meiri tekjur sem renna til RÚV í gegnum útvarpsgjaldið, á móti er verið að minnka tekjur RÚV um 350–400 milljónir (Forseti hringir.) með takmörkunum á auglýsingum.