141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

aukin áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs.

62. mál
[22:58]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um aukin áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs. Nefndarálitið er frá utanríkismálanefnd, en tillagan til þingsályktunar er frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og fleirum.

Þingsályktunartillagan hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að efla beri þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs.“

Þessi tillaga var áður flutt á 140. löggjafarþingi og er vísað í greinargerð sem fylgdi málinu þá.

Markmið tillögunnar er að efla þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi til að auka áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þetta mál og fengið meðal annars umsögn frá utanríkisráðuneytinu.

Í greinargerð með tillögunni er vísað til þess að með því samstarfi sem nú fer fram á grundvelli EES-samningsins hafi Íslendingar takmörkuð áhrif og lúti því að taka við tilskipunum og ákvörðunum frá Evrópusambandinu án þess að hafa lagt þar mikið til máls. Því næst er í tillögunni er farið yfir þær tillögur sem komu fram í skýrslu Evrópunefndar forsætisráðuneytisins um tengsl Íslands og Evrópusambandsins frá því í mars 2007. Sú nefnd var skipuð fulltrúum allra þingflokka og laut forustu þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar. Í nefndinni sátu auk hans þáverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, sem er 1. flutningsmaður þessarar tillögu, frá Framsóknarflokki þingmaðurinn Hjálmar Árnason og Jónína Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra, frá Samfylkingunni þingmennirnir Össur Skarphéðinsson, núverandi hæstv. utanríkisráðherra, og Bryndís Hlöðversdóttir, en Ágúst Ólafur Ágústsson tók síðar sæti hennar, frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði Ragnar Arnalds og Katrín Jakobsdóttir, núverandi hæstv. menntamálaráðherra, og frá Frjálslynda flokknum Brynjar Sindri Sigurðsson.

Í þeim tillögum sem Evrópunefnd forsætisráðuneytisins lagði til í skýrslu sinni er meðal annars lögð áhersla á eftirtalda þætti:

1. Auka eigi tengsl stjórnmálamanna Íslands og ríkja Evrópusambandsins og það eigi jafnt að gilda um samstarf á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis.

2. Nýttur verði réttur sem Ísland hafi til þess að auka aðkomu embættismanna að undirbúningi mála á vegum Evrópusambandsins.

3. Lögð verði áhersla á að rækja samstarf EFTA-ríkjanna við framkvæmd EES-samningsins.

4. Aukið verði við upplýsingagjöf um málefni sem snerti samstarf okkar við ESB og starf okkar á vettvangi EFTA. Sérstaklega verði tryggt að almenningur hafi tækifæri til að kynna sér þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi.

5. Samstarf sem hefur þróast á milli ýmissa hagsmunasamtaka á Evrópuvettvangi verði eflt.

6. Fagnað er aukinni kennslu í háskólum landsins á sviði Evrópufræða, en nefndin taldi hana nauðsynlega til að efla þekkingu á þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi. Námsmönnum verði gefin tækifæri til starfsnáms, þátttöku í fundum í Brussel og greiningar á einstökum viðfangsefnum á vettvangi Evrópusamstarfs.

7. Hvatt er til virkrar þátttöku í Schengen-samstarfinu, og fleira var nefnt.

Einnig er vísað í skýrslu utanríkismálanefndar Alþingis um þinglega meðferð EES-mála frá því í október 2008. Nefndin hafði að sjálfsögðu skýrslu Evrópunefndarinnar til hliðsjónar og lagði fram fjölmargar tillögur þar að lútandi.

Utanríkismálanefnd bendir á að á grundvelli framangreindrar skýrslu og tillagna utanríkismálanefndar voru reglur forsætisnefndar um þinglega meðferð EES-mála endurskoðaðar í ágúst 2010. Samkvæmt þeim reglum koma EES-mál alla jafna til meðferðar Alþingis á fjórum mismunandi stigum, sem eru rakin í nefndarálitinu.

Nefndin bendir einnig á það starf sem fer fram á vettvangi þingmannanefndar EES sem starfar samkvæmt EES-samningnum. Þingmannanefnd EES samanstendur af þingmönnum frá þjóðþingum EES/EFTA-ríkjanna þriggja og af Evrópuþinginu. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og hefur á síðustu missirum meðal annars fjallað um stjórnskipuleg álitamál innan EES/EFTA-ríkjanna varðandi rekstur samningsins og beint sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann.

Nefndin vekur jafnframt athygli á ítarlegri umfjöllun um EES-samstarfið í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem var lögð fram á Alþingi 14. febrúar og hefur þegar verið rædd hér í þinginu. Í þeirri skýrslu er meðal annars farið yfir hið pólitíska umhverfi EES-samningsins, stjórnskipuleg álitamál tengd aðild Íslands að EES og erfiðleika við að fá viðurkennda sérstöðu Íslands í ýmsum brýnum málum.

Loks telur utanríkismálanefnd mikilvægt og rétt að minna á yfirgripsmikla úttekt Norðmanna á EES-samningnum og tvíhliða samningum Noregs og ESB, skýrslu svokallaðrar Sejersted-nefndar frá því í janúar 2012 og einnig hvítbók norsku ríkisstjórnarinnar frá október 2012. Í skýrslu Sejersted-nefndarinnar er farið ofan í saumana á pólitískum, lagalegum, stjórnsýslulegum, efnahagslegum og samfélagslegum afleiðingum EES-samningsins auk reynslunnar af Schengen-samkomulaginu og annarri samvinnu Noregs og Evrópusambandsins. Þar er fjallað um þann lýðræðislega vanda að Noregur á engan fulltrúa í ákvarðanatökuferli sem hefur beinar afleiðingar fyrir Noreg. Þetta er að sjálfsögðu sameiginlegur vandi EES/EFTA-ríkjanna og á við Ísland með sama hætti. Í hvítbók ríkisstjórnarinnar kemur meðal annars fram sú áhersla að auka beri áhrif og þátttöku Noregs í samstarfi á vettvangi EES-samningsins og nýta það svigrúm sem samningurinn veitir til að hafa áhrif á mál sem eru mikilvæg Noregi.

Utanríkismálanefnd undirstrikar að ýmsum tillögum Evrópunefndar og utanríkismálanefndar, sem fram komu í fyrrnefndum skýrslum um tengsl Íslands og Evrópusambandsins og þinglega meðferð EES-mála, hefur þegar verið hrundið í framkvæmd og orðið til bóta. Nefndin leggur áherslu á að íslensk stjórnvöld þurfi á hverjum tíma að leita allra mögulegra leiða til að auka áhrif Íslands á vettvangi Evrópusamstarfs. Nefndin tekur því undir markmið tillöguflytjenda um að efla þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Íslands á mótun ákvarðana á evrópskum vettvangi. Nefndin minnir á að ljóst sé að aukin þátttaka á þessu sviði muni hafa aukinn kostnað í för með sér og vekur athygli á því að tryggja þurfi fjárveitingu til þess starfs á fjárlögum.

Nefndin er samdóma um að leggja til breytingu annars vegar á tillögugreininni og hins vegar fyrirsögn. Það er fyrst og fremst snyrting á orðalagi. Það er lagt til að tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að efla beri þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi með það að markmiði að auka áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs.

Fyrirsögn tillögunnar verði: Tillaga til þingsályktunar um aukin áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs.

Þingmennirnir Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu þessa máls.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Álfheiður Ingadóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Lúðvík Geirsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir.

Mig langar, frú forseti, í tilefni af því ég er að gera grein fyrir nefndaráliti um þetta mál að ræða aðeins um EES-samninginn og stöðu hans. Það er alveg ljóst og við höfum ítrekað rætt það í þingsal á undanförnum mánuðum og missirum að EES-samningurinn er að vissu marki, þó að hann hafi þjónað íslenskum hagsmunum í tengslum við útflutningsviðskipti okkar, kominn í visst öngstræti að því leyti til að umfang hans hefur vaxið ár frá ári. Sífellt eru ný svið að bætast við samninginn og hann er orðinn það viðamikill að ég held að óhætt sé að fullyrða að hefðu menn séð það fyrir árið 1993 þegar EES-samningurinn var gerður hvernig hann mundi þróast hefði væntanlega ekki verið vafi í huga nokkurs manns á þeim tímapunkti að hann stæðist varla stjórnarskrá lýðveldisins Íslands óbreytta. Þetta höfum við rekið okkur á með nýjum og nýjum tilskipunum sem koma frá Evrópusambandinu og sem heyra undir málasvið EES-samningsins og við þurfum að innleiða. Það er farið að teygjast svolítið á stjórnarskránni að því leyti að með vaxandi umfangi hefur vald verið framselt í auknum mæli frá Íslandi til Evrópu í gegnum EES-samninginn.

Það má vissulega halda því fram að hvert og eitt slíkt mál sé lítið í sjálfu sér og takmarkað en þegar allt er lagt saman held ég að óhætt sé að fullyrða að við erum komin í nokkurt öngstræti með þróun EES-samningsins á grundvelli gildandi ákvæða í stjórnarskrá. Þess vegna er brýnt að við setjum þetta mál í samhengi. Hér er í þinginu til umfjöllunar frumvarp til nýrrar stjórnarskrár, sem m.a. tekur á þessum þætti, meðferð utanríkismála og framsalsmála þegar það á við og setur ákveðinn ramma utan um það. Ég vonast svo sannarlega til að unnt verði að afgreiða þær stjórnarskrárbreytingar á yfirstandandi þingi, því að það er brýnt. Takist það ekki er alveg ljóst að við munum lenda í talsverðum erfiðleikum með að innleiða nýjar reglur á vettvangi Evrópusamstarfsins.

Ég ætla að leyfa mér að nefna í þessu samhengi fyrirkomulag sem er í undirbúningi á vettvangi Evrópusambandsins um sameiginlegt banka- og fjármálaeftirlit. Það hefur í för með sér umtalsvert framsal á valdi frá þjóðríkjunum og til miðlægra stofnana. Miðað við það að við séum ekki aðilar að Evrópusambandinu munum við ekki geta innleitt þá tilskipun hér á landi að óbreyttu.

Þetta vekur auðvitað upp spurningar um stöðu EES-samningsins. Ég sagði áðan að hann hefði þjónað íslenskum hagsmunum í útflutningi og í viðskiptum ágætlega en ég er ekki svo sannfærður um að hann eigi ýkja mörg ár fyrir höndum. Ég held að þess vegna sé þýðingarmikið fyrir okkur að ræða framtíðartengsl okkar við Evrópusambandið í því ljósi. Þá finnst mér ekki nóg að menn ræði bara um aðild að Evrópusambandinu með eða á móti, heldur verði líka að ræða eftirfarandi spurningu: Hvað vilja menn þá með EES-samninginn? Ef við lendum í ógöngum með hann, blasir þá ekki við, ef þjóðin vill ekki ganga í Evrópusambandið, að freista verði þess að ná tvíhliða viðræðum eða samningum við Evrópusambandið? Og er sú leið yfirleitt í boði? Ég hef sjálfur miklar efasemdir um það. Ég heyri það frá félögum okkar í Noregi að þeir eru sama sinnis, þeir telja ósennilegt, margir hverjir, að raunhæfur kostur sé að ná tvíhliða samningum við Evrópusambandið sem væru eitthvað í líkingu við þann ávinning sem EES-samningurinn færði okkur. Það kann því vel að vera að á næstu missirum og árum verðum við að glíma við þá spurningu hér á landi hvernig tengslum okkar við Evrópusambandið verður háttað til lengri tíma litið. Spurningin um aðild eða ekki aðild að Evrópusambandinu er aðeins einn angi af þeirri umræðu.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, frú forseti, að sú tillaga til þingsályktunar sem hér er til umræðu og er flutt af nokkrum þingmönnum undir forustu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar sé vel til þess fallin, verði hún samþykkt, að treysta aðkomu okkar kjörinna fulltrúa að samstarfi og treysta áhrif okkar á þá löggjöf sem verið er að setja í Evrópu og við munum innleiða. Þess vegna er það mér mikil ánægja að gera grein fyrir því hér að utanríkismálanefnd er samdóma í því áliti sínu að leggja til að tillagan verði samþykkt. Ég vænti þess og vona að þingheimur verði sama sinnis þegar málið kemur til atkvæðagreiðslu og að ályktunin verði að veruleika og að í framhaldinu verði hægt að fara að undirbúa að þingmenn og Alþingi geti í ríkari mæli beitt sér á vettvangi Evrópusamstarfsins og átt nánari samskipti og tengsl við pólitíska flokka á Evrópuþinginu en það tel ég vera nauðsynlegt. Pólitísku flokkarnir á Alþingi eru í samstarfi, sumir í mjög nánu samstarfi, við systurflokka á Evrópuþinginu, aðrir í laustengdara samstarfi.

Ég tel mikilvægt að vinna að þessu vegna þess að burt séð frá því, svo að ég segi það eina ferðina enn, hvernig spurningunni um aðild að Evrópusambandinu lyktar eru það miklir hagsmunir fyrir okkur að eiga náin og góð samskipti við Evrópusambandið, geta haft áhrif á þá löggjöf sem þar er sett og mun taka gildi í fyllingu tímans hér á landi í gegnum EES-samninginn eða hugsanlega í gegnum annars konar samstarf ef það yrði niðurstaðan til framtíðar.