141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Þetta fer að verða eins og í myndinni góðu Forrest Gump, þessar breytingartillögur eru svolítið eins og konfektkassi. Ég undirstrika það sem ég sagði áðan um það að ekki sé búið að skerpa og skýra hlutverk Ríkisútvarpsins og tilgang þess nægilega mikið. Í þessari breytingartillögu, sem ég tel vera til bóta, er einmitt komið inn á það sem lýtur að meginhlutverki Ríkisútvarpsins, menningarhlutverki þess, þ.e. að ýta undir og stuðla að því að efla sjálfstæða framleiðslu aðila sem standa fyrir utan Ríkisútvarpið. Ég vil stuðla að því að sjálfstæð íslensk framleiðsla á menningarefni eflist í landinu. Það á að vera einn af burðarásum Ríkisútvarpsins. Ekki er verið að skerpa nægjanlega vel á því. Með þessu ákvæði er þó verið að stíga agnarsmátt skref í áttina að því mikilvæga hlutverki.