141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

sameining rannsóknarnefnda í rannsóknarnefnd samgönguslysa.

609. mál
[15:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það var upplýsandi. Menn geta sagt að hér sé um litlar upphæðir að ræða og kannski er það rétt í samanburði við ýmislegt annað en þetta eru samt upphæðir sem munar um af augljósum ástæðum.

Mér sýnist að hér sé verið að stofnanavæða, ríkisvæða eitthvað sem að hluta til er núna drifið áfram af frjálsum félagasamtökum, ef ég skil hv. þingmann rétt. Hann nefnir að eins og nefndirnar eru skipaðar núna eru þeir sem sinna þessum málum menn sem þekkja þau og hafa brennandi áhuga á þeim. Það er ekki hægt að mæla sparnað, faglegan árangur eða árangur yfir höfuð í öllu þó svo að við gjarnan vildum, virðulegi forseti, og við getum ekki mælt hver ábatinn er af starfi þessara frjálsu félagasamtaka á þessu sviði.

Hér nefndi hv. þingmaður Slysavarnafélagið Landsbjörg. Ef við ætluðum nú að snúa því við og reka sem opinbert apparat held ég að enginn okkar gæti séð fyrir hver kostnaðurinn yrði af því og ég held að árangurinn yrði verri. Mér sýnist, og hv. þingmaður upplýsir mig um það ef ég er að misskilja hann, að hér séu menn að taka fyrirkomulag og stofnanavæða það. Ég man ekki eftir dæmum um það, þó að auðvitað geti verið til dæmi, að þegar menn hafa stofnanavætt einhverja starfsemi sem er unnin með þeim hætti og þessar rannsóknarnefndir hafa verið að vinna hafi það sparað peninga. Það hefur alla vega ekki verið sýnt fram á sparnað, þvert á móti hefur slíkt aukið á útgjöld. Og þessar breytingar eru gerðar í ófriði við þá aðila sem þarf að vinna með.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að fólk sé meðvitað um hvað sé hér á ferðinni vegna þess að það eina sem getur stoppað svona framgöngu ríkisstjórnarinnar er að fólkið í landinu láti heyra í sér. Hv. þingmaður og aðrir þingmenn eru búnir að reyna sitt.