141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

uppbygging á Bakka.

[10:58]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Enn leyfi ég mér að koma hér með væntingar þess efnis að hv. þingmaður byggi málflutning sinn á staðreyndum. Að halda því fram að sú ríkisstjórn sem nú situr hafi staðið í vegi fyrir Helguvík, sem hv. þingmaður ræðir hér með tárin í augunum vegna þess að hann er enn þeirrar skoðunar að öll eggin eigi að vera í sömu körfunni þó að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi meira að segja ályktað um fjölbreytt atvinnulíf, þá er hann dálítið (Gripið fram í.) á eftir sínum félögum í þeim efnum, virðist vera. (JónG: Ég hef aldrei sagt það.)

Spurning er veruleikinn, hv. þingmaður: Hvar er orkan sem á að fóðra það álver sem hv. þingmaður ber svo mikið fyrir brjósti, væntanlegt álver í Helguvík upp á 360 þús. tonna framleiðslu og 625 megavött af rafmagni? Hvar er sú orka? (JónG: Við skulum bara byrja að virkja.) (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumönnum hljóð.)