141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[12:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans í þessu máli og koma inn á örfá atriði í andsvari. Í fyrsta lagi um 66. gr. frumvarpsins þar sem talað er um umönnunarbætur vegna lífeyrisþega. Þar er skilyrt að sá sem nýtur umönnunarbóta skuli ekki uppfylla skilyrði fyrir lífeyrisgreiðslum sjálfur. Nú vitum við að jafnvel þó að sá sem veiti umönnun uppfylli slík skilyrði getur það engu að síður skert tekjumöguleika viðkomandi umtalsvert að þurfa eða vilja sinna umönnun. Spurningin er hvort ráðherra hafi skoðun á því hvort þetta atriði mætti skoða nánar og jafnvel veita glugga á einhvers konar ívilnanir.

Í öðru lagi vil ég spyrja um ákvæði í 78. gr. þar sem talað er um ofgreiddar bætur. Við þekkjum það í gegnum tíðina að þegar endurreikningur bóta almannatrygginga kemur út upphefst oft mikil umræða um hvernig gengið er eftir bótunum. Þarna er tekið fram að ákvarðanir Tryggingastofnunar um endurkröfu ofgreiddra bóta eigi að vera aðfararhæfar, en þarna getur stundum verið um umtalsverða skerðingu annars lífeyrisþega að ræða. Mig langar að velta upp þeirri spurningu hvort ekki væri skynsamlegt að taka með einhverju móti tillit til þess, a.m.k. við yfirferð frumvarpsins í nefndinni.