141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:41]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þakka honum jafnframt fyrir áhuga hans og ábyrgðartilfinningu í ríkisfjármálum sem ég held að skipti mjög miklu máli. Ég hef haft gaman af og fundist gott að fylgjast með því hvernig hv. þingmaður hefur beitt sér í þeim málaflokki. Að sjálfsögðu snýst þetta allt um forgangsröðun, ég held að verðum við að horfast í augu við það að við höfum því miður ekki forgangsraðað í þágu aldraðra borgara í þessu landi og nú held ég að tími sé kominn til að við gerum það.

Það er lagaleg skylda okkar að hækka framfærslu þeirra sem á því þurfa að halda. Við höfum verið með bráðabirgðaákvæði í lögum þess efnis að gera það ekki en ég held að við verðum að horfast í augu við að við verðum að gera það. Ég tel að við eigum að forgangsraða í þágu velferðar en að sjálfsögðu byggir velferðin á atvinnusköpun og öðru slíku þannig að það er ekki hægt að taka fyrir hvern málaflokk fyrir sig og segja: Nú tökum við velferðina, heldur verðum við að skoða samspilið. Það er vinsælt að tala um að stækka kökuna, auðvitað verðum við líka að vera í ákveðnum framkvæmdum. Það sem mér finnst eiginlega skipta mestu máli er að við horfum til langs tíma, gerum langtímaáætlanir og sjáum hvernig hlutirnir þróast saman.