141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[13:53]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef sennilega eitthvað öðruvísi máltilfinningu en hv. þm. Pétur Blöndal, mér finnst maður geta viðurkennt ýmislegt. Ég get viðurkennt það að sjálfstæðismenn hafa stundum eitthvað til síns máls án þess að það sé glæpsamlegt, svo að það komi alveg skýrt fram.

Mig langar til að minna á að framfærsluuppbótin kom ekki inn í kerfið til að flækja það. Hún kom inn í kerfið vegna þess að brýn þörf var fyrir hana. Ákveðinn hópur fólks í samfélaginu hafði ekki nægar tekjur til að brauðfæða sig. Ég held að við hljótum að vera ánægð með það að hún hafi komið til. En við ætlum núna að fara að vinna þetta eins og fólk og reyna smám saman að taka hana út þannig að fólk sem komið er á efri ár hafi sinn lífeyri, hvort sem það fær hann úr almannakerfinu eða úr lífeyrissjóðakerfinu, og að við þurfum ekki einhvers konar framfærsluuppbót. Og þó að hún hafi kannski orðið til að flækja kerfið þá vitum við að hún hefur hjálpað mörgum, þótt hún sé ekki nema rúmar 36 þús. kr., og hefur orðið til þess að hækka tekjur margra, orðið til þess að fólk hefur getað lifað þokkalega sjálfstæðu lífi og á það ekki síst við til dæmis tekjulágar konur.