141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[15:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða hér frumvarp um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Ég kem kannski hér upp í seinni ræðu mína í þessari umferð um þetta mál vegna hvatningar frá hæstv. forseta sem er ekki sá sami og situr nú, heldur sá sem var á undan. Þegar ég fór úr ræðustól og hafði eytt töluverðu af tíma mínum til að fjalla um forgangsröðun í ríkisfjármálum sá hæstv. þáverandi forseti ástæðu til að gefa áminningu um að menn ættu að halda sig við málefni á dagskrá. Eflaust er mjög vandasamt fyrir hæstv. forseta að kveða upp úr með svona hluti, ég geri mér fulla grein fyrir því, oft er erfitt að henda reiður á það sem er á dagskrá og það sem menn eru að fjalla um, en ég taldi mig ekki fara mikið út fyrir efni málsins.

Það skiptir kannski ekki máli í þessari umræðu en mig langar rétt aðeins að benda hv. þingmönnum á að lesa, sem hafa efasemdir um það að þeir sem ræða hér um forgangsröðun ríkisfjármála, síðustu tíu línurnar í frumvarpinu. Þar stendur mjög skýrt að verði þetta mál að lögum er ekki verið að vinna eftir ríkisfjármálastefnu sömu ríkisstjórnar. Það er ekki flóknara en svo, nema jú að menn finni sambærilegan niðurskurð á öðrum liðum í ríkisútgjöldunum, þ.e. að draga saman seglin einhvers staðar annars staðar. Það eru engin áform um það. Þau komu ekki fram í máli hæstv. ráðherra þegar hann mælti fyrir málinu að hann hefði einhverjar hugmyndir um slíkt. Ég verð að minna á umsagnirnar með frumvarpinu, sem eru í frumvarpinu sjálfu, þar sem bent er á hið augljósa: Ef menn ætla að setja meiri fjármuni í þennan mikilvæga málaflokk sem ég er ekki á móti verða menn auðvitað að forgangsraða upp á nýtt. Á það benti ég í ræðu minni.

Mig langar aðeins að koma inn á 107. gr. frumvarpsins og 109. gr. Þetta frumvarp er 123 greinar, mikill lagabálkur ef það verður samþykkt, og til viðbótar fylgja ýmis bráðabirgðaákvæði frumvarpinu. Það vita allir að það fer bara í nefnd og síðan verður væntanlega unnið með það næsta haust. En hvað um það. Fram kemur í 107. gr. að ráðherra sé heimilt að setja reglugerðir um einstök atriði sem eru svo talin upp, m.a. eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar. Ég tel mjög mikilvægt að hv. velferðarnefnd fari mjög vandlega yfir það vegna þess að við gerð fjárlaga fyrir árið 2013, þ.e. fyrir núverandi fjárlagaár, komu fram áhyggjur forsvarsmanna Tryggingastofnunar af því að þá vantaði frekari heimildir til að koma í veg fyrir að fólk misnotaði bótakerfið, almannavarnakerfið, reyndi að bora göt á það. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að þetta er vandrataður stígur sem snýr að því að gæta þarf varúðar þegar menn fikra sig inn á þessa braut. Það kom þó fram í máli þessara ágætu einstaklinga sem komu á fund fjárlaganefndar, þ.e. hluta hennar, að það væri verið að fara fram á sambærilegar heimildir og væru annars staðar á Norðurlöndum. Ég tel mjög mikilvægt að menn fikri sig inn á þá braut til að koma eins og hægt er í veg fyrir það svindl sem er í bótakerfinu.

Það kom líka fram og er mikilvægt að það komi fram í þingsal að í raun eru ákveðnir glæpahringir eða glæpahópar farnir að gera út á það að reyna að bora göt á almannatryggingakerfið til að fá bætur greiddar þaðan út. Margir spila á kerfið og það þarf að gera þessu fólki kleift að fylgjast með því. Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á það í stuttu andsvari áðan þegar ég spurði hann út í þessa hluti og benti á að menn væru ekki alveg sáttir við forgangsröðina hjá viðkomandi stofnun. Þá vil ég benda á hið augljósa: Þegar búið er að skera svona mikið niður hjá Tryggingastofnun hefur stofnunin auðvitað þær skyldur að greiða út bætur. Það gefur augaleið að það þarf að greiða út bætur þannig að það verður ekki skorið þar niður. Það mundi heyrast eitthvað ef bætur yrðu ekki greiddar út. Það sem hefur gerst á undanförnum árum er að menn hafa minnkað það sem snýr að eftirlitinu og fækkað starfsfólki þar. Það er mjög mikilvægt að hv. velferðarnefnd fari sérstaklega yfir þennan þátt og skoði mjög gaumgæfilega við meðferð málsins. Það er að mínu viti mjög mikilvægt að ná betri tökum á þessu.